Viðskiptaráðherra hefur skorað á bankanna að minnka vaxtamun en skýrsla starfshóps hennar um arðsemi og gjaldtöku bankanna kom út í vikunni. Í skýrslunni er að finna samanburð við banka á hinum Norðurlöndunum en þar sést að vaxtamunurinn er meiri hér á landi.
Það er þó ekki nýtt af nálinni að vaxtamunur sé hærri hér á landi. Komið hefur fram í ýmsum greiningum að smæð íslensku bankanna, efnahagsumhverfið og regluverk í kringum bankanna, svo sem háar arðsemis- og eiginfjárkröfur, hafi áhrif.
Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, bendir þá á að þegar rýnt er í tölurnar sést að á sama tíma og vaxtamunurinn tók að hækka hér á landi í fyrra hafi það sama gerst hjá öðrum bönkum á Norðurlöndunum.
„Það segir sig sjálft að þetta er að gerast hjá öllum hinum bönkunum. Vaxtamunur er að aukast á öllum stöðum en það hlýtur að vera tímabundið ástand.“
Það sé snúið að bera saman íslensku bankana við þá erlendu og spilar það inn í að stýrivextir eru mun hærri hér á landi.
Komið hefur fram í greiningum að það sé auðveldara að auka vaxtamun þegar vaxtastig er hátt og því telur Már einsýnt að vaxtamunurinn muni lækka þegar stýrivextir lækka, miðað við þróunina sem varð 2020 og 2021.
„Það má gera ráð fyrir því að það sé ákveðin töf, að það taki einhverja mánuði fyrir aukinn vaxtakostnað bankanna að koma inn. Það þyrfti kannski að athuga þetta líka í samræmi við það þegar vaxtastig fer aftur að lækka. Þá er kannski raunhæfara að bera saman þennan vaxtamun.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.