Síðasta ár var mjög gott og viðburðaríkt þar sem íslenskt efnahagslíf dafnaði vel og hagvöxtur var með því hæsta sem mældist í Evrópu. Það var mjög gott starfsumhverfi fyrir fjármálafyrirtæki að starfa í,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Arion banki hagnaðist um 25,4 milljarða króna á árinu 2022 og arðsemi eiginfjár var 13,7% sem er yfir 13% arðsemismarkmiði bankans. Vaxta- og þóknanatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi, sem bankinn hefur skilgreint sem sínar kjarnatekjur, hækkuðu um 17,5% á milli ára og námu 59 milljörðum króna.
„Það sem stóð upp úr hjá okkur á þessu ári var að við héldum áfram að auka samstarf okkar við Vörð,“ segir Benedikt og bætir við að tryggingafélagið haldi áfram að auka markaðshlutdeild sína og fjölga viðskiptavinum. „Við höfum verið að sýna í verki hvernig bankatryggingastarfsemi getur gengið upp með bættri þjónustu sem nýtist viðskiptavinum okkar. Það er mjög gaman að sjá hversu vel samstarfið gekk á síðasta ári og heldur áfram að ganga vel.“
Benedikt telur að styrkur Arion felist ekki síst í fjölbreyttu vöru- og þjónustuúrvali. Auk hefðbundinnar bankaþjónustu og tryggingaþjónustu er Arion m.a. með umfangsmikla lífeyris- og verðbréfaþjónustu ásamt eignastýringu og sjóðarekstri.
„Þar held ég að Arion samstæðan sé einstaklega vel staðsett, tekjustoðirnar okkar eru dreifðari en hjá öðrum. Við höfum tækifæri til að efla og stækka viðskiptasambandið við hvern og einn viðskiptavin. Við þurfum að draga betur fram hvaða ávinningur felst í því fyrir viðskiptavini, ekki bara í þægindum heldur líka þann fjárhagslega ávinning sem er af því að eiga í víðtækara viðskiptasambandi.“
Eftir að vel tókst að snúa rekstri bankans og bæta afkomu hans í kjölfar skipulagsbreytinga og stefnumótunarvinnu árið 2019 segir Benedikt að verkefnið fram undan hjá Arion sé að efla þjónustuna, einblína á vöruþróun og bjóða upp á enn jákvæðari upplifun fyrir viðskiptavini. Bankinn sé með áform um frekari fjárfestingar í tæknilausnum auk þess að horfa til aukins samstarf á milli sviða til þess að nálgast þarfir viðskiptavina heildstætt.
Spennandi umhverfi að starfa í
Heildareignir Arion banka námu 1.470 milljörðum króna í árslok 2022, samanborið við 1.314 milljarða í lok árs 2021. Lán til viðskiptavina jukust alls um 15,9% á milli ára en lán til einstaklinga, þá einkum íbúðalán, jukust um 10,6% og lán til fyrirtækja jukust um 22,6%.
„Stækkun lánabókar bankans til fyrirtækja endurspeglar auðvitað þann kraft sem var í hagkerfinu í fyrra,“ segir Benedikt og vísar m.a. í vöxt í upprennandi útflutningsgreinum. „Ég held að þetta sé mjög spennandi umhverfi fyrir íslensk fjármálafyrirtæki að starfa í. Ísland er ung þjóð og okkur fjölgar hratt. Við stöndum á sama tíma vel í samanburði á landsframleiðslu á hvern íbúa. Við erum efnuð þjóð og fjármálaþarfirnar eru því eðlilega umtalsverðar.“
Benedikt lýsir Íslandi einnig sem athafnasamri þjóð. Hann vísar í þeim efnum til síðustu álagningarskrár Skattsins þar sem fram kemur að um 47 þúsund fyrirtæki í landinu þurftu að greiða útvarpsgjald og rúmlega helmingur þeirra er að greiða laun reglulega.
„Það eru ótrúlegar tölur í tæplega 400 þúsund manna samfélagi. Þetta er meðal þess sem við horfum til þegar við erum að þróa okkar þjónustu. Þarfir viðskiptavina, sem eru t.d. margir hverjir í fyrirtækjarekstri, geta verið flóknar. Vegferðin hjá okkur snýr m.a. að því að ná utan um þessar ólíku þarfir, gera upplifunina góða og einfalda, og þjónusta okkar viðskiptavini með heildstæðum hætti.“
Benedikt bætir við að Arion verji nú umtalsverðum tíma í að aðstoða viðskiptavini að bregðast við hærra vaxtarstigi, t.d. þegar kemur að greiðslubyrði. Almennt sé að hægjast á hagkerfinu, líkt og vaxtahækkunum Seðlabankans var ætlað að gera, sem feli í sér áskoranir í starfsumhverfi bankans.
A-flokkun bæti aðgengi
Lánshæfismatsfyrirtækið Moody's veitti Arion í fyrsta sinn lánshæfiseinkunn sumarið 2022 og fékk bankinn þar hærri einkunn en hann var með hjá S&P Global Ratings. Í síðasta mánuði hækkaði Moody‘s lánshæfismat Arion banka sem útgefanda óveðtryggðra skuldabréfa úr Baa1 í A3.
„Það er mjög ánægjulegt að vera komin í A-flokk. Það bendir til þess að lánshæfisfyrirtækin séu farin að horfa jákvæðari augum á Ísland og efnahagsumhverfið hér á landi. Það vonandi nýtist okkur í betra aðgengi að erlendum lánamörkuðum.“
Benedikt segir að seinni árshelmingur 2022 hafi verið krefjandi en kjör íslensku bankana í erlendum skuldabréfaútgáfum versnuðu þó nokkuð. Staðan hafi þó skánað og nálgist það sem megi teljast eðlilegt. Hann telur að viðhorf lánshæfisfyrirtækjanna hjálpi þar til en S&P Global Ratings og Moody‘s færðu nýlega lánhæfismat ríkissjóðs úr stöðugum í jákvæðar.
„Maður bindur vonir við að jákvæðar horfur skili sér síðan í hækkun lánhæfismatsins sem stuðlar að betra lánshæfi fyrir fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki með lánshæfismöt. Það myndi að óbreyttu leiða til betri fjármögnunarkjara fyrir þjóðarbúið sem skilar sér til fyrirtækja og heimila í landinu.
Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.