Sam­kvæmt Peninga­málum Seðla­banka Ís­lands hefur inn­lendur þjóðar­bú­skapur náð að vinna upp það fram­leiðslutap sem varð í kjölfar farsóttarinnar árið 2020 og þeirra efna­hags­legu áskorana sem heims­bú­skapurinn hefur staðið frammi fyrir undan­farin ár.

Sam­kvæmt SÍ hefur inn­lendur þjóðar­bú­skapur staðið þessi áföll betur af sér en bú­skapur annarra landa.

Segir í riti bankans að efna­hags­batinn hafi verið „al­mennt kröftugri hér á landi en í öðrum löndum.“

Heims­fram­leiðslan var í fyrra enn ríf­lega 3% undir því sem gert var ráð fyrir að hún yrði í spám Alþjóða­gjald­eyris­sjóðsins rétt fyrir kórónu­veirufar­aldurinn.

„Á meðal annarra iðn­ríkja er batinn mestur í Bandaríkjunum þar sem lands­fram­leiðsla var í fyrra nokkurn veginn komin á þann leitni­feril sem spáð var fyrir farsóttina. Hins vegar var fram­leiðslu­stigið enn ríf­lega 2% undir því sem þá var spáð á evru­svæðinu enda leiddi stríðið í Úkraínu til mun al­var­legri við­skipta­kjaraá­falls í löndum á megin­landi Evrópu en annars staðar,“ segir í Peninga­málum SÍ.

Batinn í fjölda starfa á Ís­landi tölu­vert meiri en meðal annarra landa.

Seðlabankinn segir að áföll undan­farinna ára hafa haft enn meiri áhrif á ný­markaðs­ríki, þar sem lands­fram­leiðsla í fyrra var enn um 5% undir því sem spáð var að hún yrði fyrir far­aldurinn.

Einka­neysla hér á landi í fyrra, líkt og í Bandaríkjunum, var þegar komin yfir það sem spáð var fyrir far­aldurinn.

„Þar vega stuðningsað­gerðir stjórn­valda sem vörðu bæði störf og tekjur lík­lega þungt en einnig að efna­hags­sam­drátturinn hér á landi var í mun meira mæli drifinn áfram af út­flutningsá­falli í saman­burði við önnur OECD-ríki á meðan inn­lend eftir­spurn hélt betur velli.“

Þá bendir Seðla­bankinn á að batinn á evru­svæðinu sé veikari en það sé meðal annars vegna meiri áhrifa inn­rásarinnar í Úkraínu á ráðstöfunar­tekjur á svæðinu en hér á landi og í Bandaríkjunum.

Seðla­bankinn segir einnig að ólíkt því sem hefur gerst í öðrum löndum þá hefur fjár­festing á Ís­landi vaxið tölu­vert um­fram það sem spáð var fyrir far­aldurinn.

„Í iðn­ríkjum var fjár­festingar­stigið í fyrra enn 3% undir því sem spáð var og í heiminum öllum vantaði enn 5% til að ná þeim leitni­ferli sem gert var ráð fyrir í byrjun árs 2020. Þar kann aukin skuld­setning fyrir­tækja að vega þungt sem lík­lega hefur haldið aftur af fjár­festingu í heiminum. Hér á landi hafa skuldir fyrir­tækja hins vegar ekki aukist með sama hætti. Þá er lík­legt að aukin óvissa og hækkun vaxta hafi einnig átt hlut að máli þótt áhrif þeirra sjáist ekki hér á landi í sama mæli,“ segir í Peninga­málum.

Líkt og sjá má á myndinni hér að ofan er batinn í fjölda starfa á Ís­landi tölu­vert meiri en meðal annarra landa. Í Bandaríkjunum var fjöldi starfa í fyrra enn lítil­lega undir því sem spáð var fyrir far­aldurinn en á evru­svæðinu voru þau orðin ríf­lega 1% fleiri.

„Tæp­lega fimm árum eftir al­var­legasta efna­hags­á­fall sem heims­bú­skapurinn hefur orðið fyrir frá lokum seinna stríðs er hann enn að glíma við af­leiðingarnar. Að hluta endur­speglar það lang­vinn áhrif farsóttarinnar en við bætast áhrif inn­rásar Rússa í Úkraínu, átaka fyrir botni Miðjarðar­hafs, aukinnar brota­myndunar í alþjóða­stjórn­málum og -við­skiptum og áhrif harðara taum­halds seðla­banka um allan heim við að ná tökum á verðbólgu. Þróunin hér á landi hefur hins vegar skorið sig nokkuð úr og hafði inn­lent fram­leiðslu­stig þegar í fyrra farið fram úr því stigi sem spáð var fyrir farsóttina,“ segir í Peninga­málum.