Samkvæmt Peningamálum Seðlabanka Íslands hefur innlendur þjóðarbúskapur náð að vinna upp það framleiðslutap sem varð í kjölfar farsóttarinnar árið 2020 og þeirra efnahagslegu áskorana sem heimsbúskapurinn hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár.
Samkvæmt SÍ hefur innlendur þjóðarbúskapur staðið þessi áföll betur af sér en búskapur annarra landa.
Segir í riti bankans að efnahagsbatinn hafi verið „almennt kröftugri hér á landi en í öðrum löndum.“
Heimsframleiðslan var í fyrra enn ríflega 3% undir því sem gert var ráð fyrir að hún yrði í spám Alþjóðagjaldeyrissjóðsins rétt fyrir kórónuveirufaraldurinn.
„Á meðal annarra iðnríkja er batinn mestur í Bandaríkjunum þar sem landsframleiðsla var í fyrra nokkurn veginn komin á þann leitniferil sem spáð var fyrir farsóttina. Hins vegar var framleiðslustigið enn ríflega 2% undir því sem þá var spáð á evrusvæðinu enda leiddi stríðið í Úkraínu til mun alvarlegri viðskiptakjaraáfalls í löndum á meginlandi Evrópu en annars staðar,“ segir í Peningamálum SÍ.
Seðlabankinn segir að áföll undanfarinna ára hafa haft enn meiri áhrif á nýmarkaðsríki, þar sem landsframleiðsla í fyrra var enn um 5% undir því sem spáð var að hún yrði fyrir faraldurinn.
Einkaneysla hér á landi í fyrra, líkt og í Bandaríkjunum, var þegar komin yfir það sem spáð var fyrir faraldurinn.
„Þar vega stuðningsaðgerðir stjórnvalda sem vörðu bæði störf og tekjur líklega þungt en einnig að efnahagssamdrátturinn hér á landi var í mun meira mæli drifinn áfram af útflutningsáfalli í samanburði við önnur OECD-ríki á meðan innlend eftirspurn hélt betur velli.“
Þá bendir Seðlabankinn á að batinn á evrusvæðinu sé veikari en það sé meðal annars vegna meiri áhrifa innrásarinnar í Úkraínu á ráðstöfunartekjur á svæðinu en hér á landi og í Bandaríkjunum.
Seðlabankinn segir einnig að ólíkt því sem hefur gerst í öðrum löndum þá hefur fjárfesting á Íslandi vaxið töluvert umfram það sem spáð var fyrir faraldurinn.
„Í iðnríkjum var fjárfestingarstigið í fyrra enn 3% undir því sem spáð var og í heiminum öllum vantaði enn 5% til að ná þeim leitniferli sem gert var ráð fyrir í byrjun árs 2020. Þar kann aukin skuldsetning fyrirtækja að vega þungt sem líklega hefur haldið aftur af fjárfestingu í heiminum. Hér á landi hafa skuldir fyrirtækja hins vegar ekki aukist með sama hætti. Þá er líklegt að aukin óvissa og hækkun vaxta hafi einnig átt hlut að máli þótt áhrif þeirra sjáist ekki hér á landi í sama mæli,“ segir í Peningamálum.
Líkt og sjá má á myndinni hér að ofan er batinn í fjölda starfa á Íslandi töluvert meiri en meðal annarra landa. Í Bandaríkjunum var fjöldi starfa í fyrra enn lítillega undir því sem spáð var fyrir faraldurinn en á evrusvæðinu voru þau orðin ríflega 1% fleiri.
„Tæplega fimm árum eftir alvarlegasta efnahagsáfall sem heimsbúskapurinn hefur orðið fyrir frá lokum seinna stríðs er hann enn að glíma við afleiðingarnar. Að hluta endurspeglar það langvinn áhrif farsóttarinnar en við bætast áhrif innrásar Rússa í Úkraínu, átaka fyrir botni Miðjarðarhafs, aukinnar brotamyndunar í alþjóðastjórnmálum og -viðskiptum og áhrif harðara taumhalds seðlabanka um allan heim við að ná tökum á verðbólgu. Þróunin hér á landi hefur hins vegar skorið sig nokkuð úr og hafði innlent framleiðslustig þegar í fyrra farið fram úr því stigi sem spáð var fyrir farsóttina,“ segir í Peningamálum.