Eftir fjármálakreppuna árið 2008 voru innleidd ný fjármálatæki til að styrkja eiginfjárstöðu banka þegar þeir lenda í erfiðleikum.
Eitt þeirra eru svokölluð Additional Tier 1 (AT1) skuldabréf, sem hafa skapað alþjóðlegan markað að virði um 270 milljarða dala, samkævmt pistli Satyajit Das, fyrrverandi bankastjóra og höfundar bókanna Traders, Guns & Money, Extreme Money og Banquet of Consequences í Financial Times.
Das segir að þrátt fyrir vinsældir þeirra eru eftirlitsaðilar nú að íhuga að fasa þau út, líkt og ástralskir eftirlitsaðilar hafa þegar ákveðið, þar sem þau hafa ekki veitt þann stöðugleika sem til var ætlast.
AT1 skuldabréf eru hluti af eiginfjárgrunni banka og veita hærri ávöxtun en hefðbundin skuldabréf. Í íslenskum lögum heita AT1- bréf „skuldabréf sem telja til eigin fjár þáttar 1".
Hins vegar fylgja þeim sérstakir skilmálar eins og ef banki lendir í fjárhagsvanda og eiginfjárhlutfall hans fellur undir ákveðin mörk, geta þessi skuldabréf annaðhvort breyst í hlutabréf eða verið afskrifuð til að taka á sig tap bankans.
Þetta kallast oft bail-in, þar sem fjárfestar taka á sig tap í stað þess að ríkið komi til bjargar, skrifar Das.
Tveir af íslensku viðskiptabönkunum, Arion banki og Íslandsbanki, hafa gefið út skuldabréf á þessu formi. Eftir yfirtöku UBS á Credit Suisse var markaðurinn það laskaður að íslensku bankarnir gátu ekki nýtt sér svigrúm til að gefa út AT1-bréf.
Við yfirtökuna fengu hluthafar Credit Suisse greiðslu að fjárhæð 3,25 milljarða evra en AT1-skuldabréf sem bankinn hafði gefið út voru afskrifuð að fullu. Ákvörðunin olli miklum usla enda höfðu skuldabréfaeigendur Credit Suisse staðið í þeirri trú að AT1-skuldabréfin nytu forgangs gagnvart hlutafé samkvæmt lögum.
Þessi tegund fjármálagerninga hefur þó ýmsa galla. Einn helsti vandinn er að ákvörðun um afskriftir eða umbreytingu getur verið háð mati eftirlitsaðila, sem skapar lagalega óvissu, eins og deilurnar um afskriftir AT1 skuldabréfa Credit Suisse hafa sýnt.
Enn fremur geta slíkar aðgerðir sett af stað neikvæða keðjuverkun á markaði. Ef fjárfestar missa trú á banka, getur það leitt til hærri fjármagnskostnaðar, innlánaflótta og lækkunar á hlutabréfaverði bankans.
Að auki eru AT1-skuldabréf áhættusöm fyrir fjárfesta, þar sem þau sitja aftar í skuldaröð bankans en hefðbundin skuldabréf, en veita þó ekki atkvæðisrétt eins og hlutabréf.
Margir fjárfestar treysta því á að bankinn verði rekinn af ábyrgð og að eiginfjárstaða hans verði nægilega sterk til að AT1 verði ekki virkjað. Hins vegar hefur reynslan sýnt að það er ekki sjálfgefið.

Ástralski fjármálaeftirlitsaðilinn APRA ákvað í lok árs 2024 að taka út AT1 skuldabréf, þar sem þau reyndust ekki duga til að koma í veg fyrir fjármálaóstöðugleika.
Bretland hefur tekið mildari nálgun og hyggst hækka þröskuldinn fyrir útgáfu slíkra skuldabréfa en krefjast jafnframt sterkari varna í tapþolandi skuldum.
Þróunin bendir til þess að fleiri lönd muni endurskoða notkun AT1-skuldabréfa. Þótt þau hafi verið vinsæl fjárfesting hafa atburðir eins og hrunið hjá Credit Suisse sýnt að þau geta frekar aukið óstöðugleika en veitt þá vernd sem upphaflega var stefnt að.