Ístex framleiðir ullarsængur, kodda og yfirdýnur sem seldar eru undir merkinu Lopidraumur en Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex, segir verkefnið sjálft hafa hafist með vöruþróun fyrir fjórum árum.
„Það eru þrjú ár síðan við settum sængurnar fyrst á markað hérlendis og það er búið að vera mjög gaman að fylgja þeim eftir. Fyrst voru þetta tengdir aðilar, líkt og bændur og síðan sérstakt áhugafólk um ull og heilsuvöru, sem voru að kaupa. Síðan hefur þetta verið að þróast hratt yfir í fólk sem vill sofa vel í náttúrulegum efnum.“
Í ár hafi síðan orðið sprenging en salan hefur tvöfaldast og sumir mánuðir hafa fjórfaldast milli ára að sögn Sigurðar.
Ístex kaupir 98-99% af allri ull á Íslandi en ákveðinn hluti þess er ull sem erfitt er að nota í handprjónaband vegna þess að hún er mislit og litur hentar ekki. Þannig kom hugmyndin að sængurull.
„Hún er fjarska falleg og er náttúrulega góð ull, það þarf bara að finna henni réttan stað þar sem hún kemur að góðu gagni. Umhverfissjónarmið skipta okkur miklu máli og horfum við til þess í allri okkar framleiðslu,“ segir Sigurður.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.