Eignar­halds­fé­lagið Egg ehf., í eigu hjónanna Ernu Gísla­dóttur og Jóns Þórs Gunnars­sonar, hefur gert samning um kaup á öllu hluta­fé Bíla­leigu Flug­leiða ehf., um­boðs­aðila Hertz á Ís­landi, með fyrir­vara um sam­þykki Sam­keppnis­eftir­litsins og Hertz International.

Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu en selj­endur Hertz á Ís­landi eru Fram­taks­sjóðurinn Horn III slhf. og Norður­löndin ehf.

„Gangi kaupin eftir verður Bíla­leiga Flug­leiða systur­fé­lag annarra fyrir­tækja í eigna­safni Eggs, sem eru bíla­um­boðið BL, Egg fast­eignir, dekkja­heild­sölu­fyrir­tækið Mítra, hleðslu­fyrir­tækið Ísorka og Flex lang­tíma­leiga. Líkt og önnur fé­lög í eigna­safni Eggs verður rekstur bíla­leigunnar á­fram með sjálf­stæðum hætti og í ó­breyttri mynd,“ segir í til­kynningu.

Bíla­leiga Flug­leiða er á meðal stærstu bíla­leiga landsins, með um 3.500 bíla í rekstri á háanna­tíma ársins. Höfuð­stöðvar fyrir­tækisins eru við Sel­hellu 5 í Hafnar­firði og af­greiðslu­staðir stað­settir víða um land.

Fyrirtækið keypti bifreiðar fyrir um 5,2 milljarða króna í fyrra sem er meira en tvöföldun frá fyrra ári. Til samanburðar nam kaupverð bifreiða um 2,5 milljörðum árið 2019.

Hertz á Íslandi keypti m.a. hundrað Teslur í fyrra og var fyrst fyrirtækja hér á landi til að fara með umrædda bíla í skammtímaleigu til túrista. Um er að ræða lið í vegferð alþjóðafyrirtækisins Hertz Global sem lagði árið 2021 inn stærstu pöntun í sögu Tesla.

Samkvæmt ársreikningi Bílaleigu Flugleiða fyrir árið 2022 átti félagið Norðurlöndin ehf. 60% hlut í bílaleigunni.

Umrætt félag er í eigu Hendrik Berndsen, Sigfúsar Bjarna Sigfússonar, Sigfúsar Ragnars Sigfússonar og Sigurðar Berndsen.

Hver þeirra á fjórðungshlut í félaginu. Þá átti Horn III, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, 40% hlut í bílaleigunni í lok síðasta árs.

Horn III keypti hlut sinn í bílaleigunni sumarið 2019 af eigendum Norðurlandanna.