Leiða má líkum að því að eignarhald og fjármagnsskipan Ljósleiðarans hafi undanfarið staðið fyrirtækinu fyrir þrifum varðandi áform þess um þróun og uppbyggingu starfsemi á landsvísu,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofu, í ávarpi sínu í ársskýrslu stofnunarinnar.

Leiða má líkum að því að eignarhald og fjármagnsskipan Ljósleiðarans hafi undanfarið staðið fyrirtækinu fyrir þrifum varðandi áform þess um þróun og uppbyggingu starfsemi á landsvísu,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofu, í ávarpi sínu í ársskýrslu stofnunarinnar.

Hrafnkell bendir á að viðleitni til að efla Ljósleiðarann, sem er alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur (OR), með því að breikka eignarhaldið og sækja nýtt hlutafé hafi enn ekki borið árangur.

„Ferlið stendur enn yfir og rétt er að bíða og sjá hverju fram vindur. Niðurstaðan mun mögulega marka þróun samkeppni á innviðahluta fjarskiptamarkaðar til langs tíma.“

Uppbygging fjarskiptaneta á landsvísu, líkt og Ljósleiðarinn hefur unnið að, sé kostnaðarsamt langtímaverkefni sem krefst aðgangs að þolinmóðu fjármagni að sögn Hrafnkels. Hátt vaxtastig setji strik í reikning þeirra sem þurfa að fjármagna langtímaframkvæmdir á vaxtakjörum um eða yfir 10%.

Í því ljósi nefnir hann að eignarhald og fjármagnsskipan Ljósleiðarans virðist hafa staðið fyrirtækinu fyrir þrifum. Hrafnkell áréttar þó að fjarskiptaregluverkið taki ekki beina afstöðu til eignarhalds fjarskiptafélaga hvað þetta varðar.

Unnið að hlutafjáraukningu í tvö ár

Ljósleiðarinn tilkynnti sumarið 2022 um að félagið hygðist sækja nýtt hlutafé, m.a. til að fjármagna nýjan landshring fjarskipta og bæta fjármagnsskipan félagsins. Horft var til þess að fá nýja fjárfesta að félaginu sem gætu eignast allt að þriðjungshlut.

Í aðdraganda þess að samþykki fékkst frá eigendum OR - Reykjavíkurborg (93,5%), Akraneskaupstaður (5,5%) og Borgarbyggð (0,9%) – lagði borgarráð sérstaka áherslu á að OR haldi meirihluta í Ljósleiðaranum og að ekki væri um einkavæðingu félagsins að ræða.

Ferlið hefur tafist umtalsvert og enn er unnið að undirbúningi hlutafjáraukningunnar. Í nýlegri tilkynningu í byrjun mánaðarins sagði félagið að aðstæður á fjármagnsmarkaði fyrir sölu nýs hlutafjár ekki hafa verið hagfelldar og að Ljósleiðarinn muni greina aðra kosti við fjármögnun félagsins til næstu ára.

Hægðu á fjárfestingum Ljósleiðarans

Hár fjármagnskostnaður hefur litað afkomu Ljósleiðarans á síðustu misserum og tapaði félagið 570 milljónum króna árið 2023, samanborið við 87 milljóna tap árið áður. Rekstrartekjur og EBITDA-hagnaður jukust þó milli ára.

Samhliða því að ársreikningurinn var kynntur var tilkynnt um að dregið verði úr fjárfestingum Ljósleiðarans þangað til niðurstaða fæst í hlutafjáraukningu félagsins.

OR lýsti sig reiðbúið að taka þátt – bökkuðu síðan

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins, sem var birtur 28. febrúar, segir stjórnin ljóst að Ljósleiðarinn þurfi nýtt fjármagn til að styðja við þann vöxt sem er áætlaður í framhaldi af 3 milljarða kaupa á stofnneti frá Sýn.

„Ljósleiðarinn vinnur að því að fá nýja hluthafa inn en komi til þess að hlutafjáraukningin, sem samþykkt hefur verið, gangi ekki eftir eða dragist á langinn hefur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur lýst því yfir að félagið muni auka hlutafé sitt í Ljósleiðaranum á markaðsvirði til að tryggja áframhaldandi rekstur og til að verja hagsmuni sína.“

Þann 7. maí síðastliðinn sendi Ljósleiðarinn frá sér tilkynningu í ljósi þess að opinber umræða um ársreikning fyrirtækisins, sem hluta af samstæðu Reykjavíkurborgar, fór fram þann daginn.

Félagið sagði að ofangreint „endurmat fjárfestingarþarfar Ljósleiðarans“, þ.e. að dregið var úr áformuðum fjárfestingum félagsins, hafi gert það að verkum að félagið telji sig nú búa yfir nægjanlegu handbæru fé til rekstrar á árinu 2024.

„Því mun að óbreyttu ekki koma til þess að Orkuveitan leggi Ljósleiðaranum til aukið hlutafé.“