Eik hefur ákveðið að taka ekki tilboðum í Glerártorg á Akureyri sem fasteignafélaginu barst í desember síðastliðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu Eikar til Kauphallarinnar.

Eik tilkynnti í desember að félaginu hefði borist óskuldbindandi tilboð í Glerártorg og ákveðið að bjóða tilteknum aðilum að halda áfram í söluferli. Félagið áréttaði þó að ekki lægi fyrir vissa hvort ferlið myndi leiða til sölu á Glerártorgi.

Í tilkynningu sem Eik sendi frá sér klukkan hálf fjögur í dag segir félagið að söluferli hafi ekki ásættanlegum árangri „og telst ferlinu þar með lokið“.

Eik eignaðist Glerártorg árið 2014 þegar fasteignafélagið tók yfir rekstur og keypti EF1 hf., sem var í eigu SMI ehf. Í eignasafni EF1 voru m.a. Turninn að Smáratorgi 3 og Smáratorg 1 í Kópavogi og verslunarmiðstöðin Glerártorg á Akureyri.

Eik segir að Glerártorg, sem er stærsta verslunarmiðstöð landsbyggðarinnar, hafi gengið í gegnum miklar endurbætur á undanförnum tveimur árum sem hafi skilað sér í sterkri eftirspurn eftir leigurýmum og virðisútleiguhlutfalli í 97,5% um síðustu áramót.

„Áfram verður haldið í að gera torgið að höfuðstað verslunar- og þjónustu á Norðurlandi með frekari uppbyggingu ásamt fyrirhugaðri íbúðarbyggð á lóðum félagsins á Gleráreyrum sem styðja við svæðið. Þessu til viðbótar stendur til að reist verði samgöngumiðstöð við hlið Glerártorgs með tilheyrandi auknu flæði og aðgengi og því eru spennandi tímar framundan,“ segir í tilkynningu Eikar.