Stjórnir fasteignafélaganna Eikar og Reita hafa ákveðið að slíta viðræðum um mögulegan samruna. Félögin sendu bæði frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar fyrir skemmstu.

Stjórnir Eikar og Reita hófu samrunaviðræður í lok júní, nokkrum dögum eftir að Regin tilkynnti um fyrirhugað yfirtökutilboð í Eik. Stjórn Eikar sagðist við tilefni hafa viljað kanna hvort grundvöllur væri fyrir viðræðum við stjórn Reita um mögulegan samruna sem væri hluthöfum hagfelldari en fyrirhugað yfirtökutilboð Regins.

Í tilkynningu sem Reitir sendu frá sér áðan segir að ástæða þess að viðræðum hafi verið slitið sé að ekki hafi tekist að ná samkomulagi um skiptahlutföll milli félaganna.

„Til undirbunings samningaviðræðum var unnin ítarleg greining á virði félaganna, m.a. með aðkomu óháðra aðila. Reitir er stærst fasteignafélaganna og jafnt rekstrarhorfur, arðsemi og tækifæri til þróunar og uppbyggingar eru með ágætum. Við þær aðstæður metur stjórn Reita það ekki í þágu hagsmuna hluthafa félagsins að fallast á verulega eftirgjöf í virðismati til þess að af sameiningu verði,“ segir stjórn Reita.

Hún segir að við undirbúning viðræðna hafi farið fram gagnger skoðun á rekstri félagsins og skipulagi sem muni gagnast stjórn félagsins og stjórnendum við að skerpa á skipulagi og rekstrarlegum áherslum.

„Þá verður umgjörð um hagnýtingu þróunareigna efld og áhersla lögð á að nýta enn betur uppbyggingar- og sölutækifæri sem í þeim felast.“

Stjórn Eikar hyggst kanna aðra möguleika til hlítar

Stjórn Eikar segir að í ljósi þeirra upplýsinga og samskipta sem liggja fyrir meta aðilar stöðuna þannig að þeir muni ekki, að óbreyttu, ná sameiginlegri niðurstöðu um virðismat og skiptahlutföll milli félaganna.

„Stjórn mun áfram leitast við að auka veg hluthafa sinna og gæta þeirra hagsmuna, halda samtalinu við þá áfram og kanna aðra möguleika til að efla félagið til hlítar.“

Reginn lagði formlega fram yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar í byrjun júlí síðastliðnum en tilboðið gildir til 16. október næstkomandi.

Um miðjan septembermánuð birti stjórn Eikar greinargerð þar sem stjórn fasteignafélagsins lagðist gegn yfirtökutilboði Regins. Stjórnin taldi þann eignarhlut sem hluthöfum Eikar var boðinn í sameiginlegu félagi væri of lítill með vísan í sérfræðiálit Arctica Finance og KPMG þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að sanngjarnt hlutfall hluthafa Eikar sé um 50,5-50,6%.

Reginn ákvað degi síðar að gera breytingar á skilmálum yfirtökutilboðsins þar sem tilboðsverðið fyrir hvern hlut í Eik var hækkað úr 0,452 hlutum í tilboðsgjafa í 0,489 hluti í Regin. Skiptihlutfallið samkvæmt hinu breytta tilboði er þá þannig að hlutfall hluthafa Eikar er 48% en hluthafa Regins 52%.

Í tilkynningu sem stjórn Eikar sendi frá sér í dag kemur fram að hún muni birta viðbót við greinargerð sína vegna breytinga á valfrjálsu tilboði Regins eigi síðar en einni viku áður en gildistími tilboðsins rennur út.