Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,2% í 3,2 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.
Eimskip lækkaði um 4,6%, mest af félögum aðalmarkaðarins, í 290 milljóna veltu. Gengi flutningafélagsins stendur nú í 525 krónum á hlut. Lækkun Eimskips má eflaust rekja til 5,7% lækkun á hlutabréfum Maersk í dag.
Danski skiparisinn sagði í uppgjörstilkynningu í dag að ljóst sé að flutningaverð hafi náð hámarki á síðasta fjórðungi og hafi byrjað að færast í átt að eðlilegu stigi. Það skýrist af minnkandi eftirspurn ásamt því að staða aðfangakeðja hafi batnað.
Fasteignafélögin Reitir og Eik lækkuðu bæði um 3% í viðskiptum dagsins. Þriðja fasteignafélagið á aðalmarkaðnum, Reginn, lækkaði um 1,4%. Þá lækkuðu hlutabréf bankanna þriggja í dag. Gengi Íslandsbanka og Kviku féllu um 2,9% og Arion banki lækkaði um 1,8%.
Eftir að hafa hækkað samfellt síðustu sjö viðskiptadaga þá féll gengi Marels um 2,7% í 440 milljóna veltu og stendur nú í 506 krónum. Marel birtir uppgjör fyrir þriðja fjórðung síðar í dag.