Íslenska ríkið var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag sýknað af kröfum Eimskipafélags Íslands hf. um að úrskurður yfirskattanefndar í máli félagsins, frá 2019, yrði felldur úr gildi og að ríkið yrði dæmt til að greiða félaginu rúmlega 24 milljónir króna.
Málið laut að framtölum Eimskips gjaldárin 2014 og 2015 vegna óbeins eignarhalds félagsins á félögum í Antígva og Barbúda. Eimskip átti hið færeyska P/f Faroe Ship en það félag átti dótturfélög á karabísku eyjunum sem starfræktu þurrleigu skipa. Deila málsins laut að því hvort Eimskip hefði borið að skila CFC-skýrslu vegna þessa rekstrar og telja sér hagnað þeirra til tekna í skattskilum sínum.
- Sjá meira: 700 milljóna deila við skattinn
Með úrskurði í desember 2017 endurákvarðaði Skatturinn opinber gjöld Eimskips vegna eignarhaldsins. Hækkuðu tekjur um rúman milljarð árið 2014 og um rúmar 387 milljónir króna árið á eftir. Leiddi það til þess að stofn til tekjuskatts fyrra árið varð 97 milljónir í stað yfirfæranlegs 159 milljóna taps og seinna árið féll 285 milljóna yfirfæranlegt tap. Fjórðungsálagi á vantaldan skattstofn var bætt við og nam greiddur skattur ríflega 24 milljónum króna.
Niðurstaða Skattsins, þá Ríkisskattstjóra, var kærð til yfirskattanefndar. Féllst nefndin ekki á að óbeint eignarhald Eimskips á félögunum myndi ekki skáka því undan gildissviði CFC-ákvæðis tekjuskattlaganna. Varakröfu um lækkun skattsstofns vegna hluta félaganna, þar sem upplýsingaskiptasamningur milli Íslands og Antígva og Barbúda hafði tekið gildi árið 2012, var einnig hafnað. Að mati nefndarinnar voru lagaskilyrði fyrir því ekki uppfyllt þar sem að tekjurnar af þurrleigu skipanna væru að meginstofni eignatekjur en ekki atvinnurekstrartekjur.
Eignatekjur eða raunveruleg atvinnustarfsemi?
Eimskip höfðuðu mál til ógildingar á úrskurðinum. Benti félagið á að ekki væri um skattasniðgöngu að ræða, hvorki hér á landi né í Færeyjum. Ekkert umræddra skipa hefði verið á íslenskri skipaskrá og hvorki útgerð né þurrleiga í höndum íslensks félags. Tekjurnar af útgerðinni hefðu orðið til í Færeyjum, hjá P/f Faroe Ship, og það stalið skil á sínum opinberu gjöldum þar. Ekki hefði verið nógu skýrt við setningu CFC-reglnanna hvaða áhrif félagakeðja hefði.
Að mati Eimskips var ekki rétt að fallast á það mat yfirskattanefndar að tekjurnar af þurrleigunni væru að mestu eignatekjur en ekki atvinnurekstrartekjur og var varakrafa þess byggð á því. Niðurstaða þar að lútandi hljóti að taka mið af því hvort tekjurnar séu að meginstofni óvirkar, kvikar og tilfallandi eða hvort tekjur af reglulegri starfsemi hafi verið að ræða. Var bent á að meira en helmingur tekna félaganna ytra hefðu verið tekjur af þurrleigu. Þar sem hefðu þau selt þjónustu sem bæri að telja sem atvinnurekstur.
- Sjá meira: Meta næstu skref í deilu við skattinn
Í málsvörn ríkisins var byggt á því að Antívga og Barbúda væri lágskattaríki í skilningi tekjuskattslaganna og að þau hefðu ekki verið skattlögð þar. Enga þýðingu hefði fyrir úrlausn málsins hvernig skipin hefðu verið skattlögð ef þau hefðu verið heimilisföst í Færeyjum. Þá hefði skatturinn sem greiddur var í Færeyjum, svokallaður tonnaskattur, ekki verið lagður á hagnað sem myndaðist vegna þurrleigunnar.
Hvað varakröfuna varðaði var það mat ríkisins að þurrleigutekjurnar væru óumdeilanlega eignatekjur en þar undir falla til að mynda leigutekjur, arður af fasteignum og lausafé og arður af hlutabréfum. Það væri einkenni slíkra tekna að þær væru minna háðar hefðbundnu vinnuframlagi en á við ýmsar aðrar tekjur á borð við launatekjur og sölu á þjónustu.
Túlkun Eimskips færi á svig við tilgang reglnanna
„Ef fallist væri á túlkun [Eimskips] hvernig skattleggja beri hagnað umræddra félaga fæli það, að mati dómsins, í sér misnotkun á gildandi reglum. Það fyrirkomulag sem [félagið] hefur komið á fót með stofnun félaga í Færeyjum og í lágskattaríkjum endurspeglar, að mati dómsins, ekki efnahagslegan raunveruleika eða rekstrarlegan tilgang félaganna, heldur virðist það eingöngu sett á fót til að ná fram skattahagræði sem gengur gegn markmiðum og tilgangi laga um tekjuskatt og þar á meðal markmiði [CFC-reglna tekjuskattslaganna],“ segir í niðurstöðukafla dómsins.
Félögin hefðu verið heimilisföst í Antígva og Barbúda og í Færeyjum þar sem enginn tekjuskattur var greiddur af hagnaði þeirra. Félögin féllu óbeint undir eignarhald Eimskipa og því hefði þeim borið að gera grein fyrir tekjunum í skattskilum sínum. Félagakeðjan gæti ekki haft áhrif þar á og var aðalkröfunni því hafnað.
Hvað varakröfuna varðar tók dómurinn til skoðunar hvort þarna væru eignatekjur á ferð eða tekjur af atvinnurekstri. Til að undanþágan ætti við þyrfti meira en helmingur tekna að stafa frá raunverulegri atvinnustarfsemi. Benti dómurinn á að félögin sem um ræðir hefðu öll leigt P/f Faroe Ship, það er móðurfélagi sínu, skip sín og einu tekjurnar hefðu því verið leigutekjur frá móðurfélaginu.
„Skipin voru ekki gerð út frá Antígva og Barbúda og samkvæmt gögnum málsins voru engir starfsmenn starfandi hjá félögunum og áttu þau engar fasteignir […]. Með vísan til þess er að framan greinir og að virtum gögnum málsins verður ekki talið að sú starfsemi sem fram fór í dótturfélögum [Eimskips] í lágskattaríkjunum á umræddum árum geti fallið undir það sem telst raunveruleg atvinnustarfsemi, þ.e. framleiðsla á vörum og þjónustu,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Enn fremur var því hafnað að jafna mætti umræddum tekjum til raunverulegrar atvinnustarfsemi fasteignafélaga sem hafi með höndum útleigu fasteigna. Slippkostnaður, sem værður var til gjalda í ársreikningum þeirra, gæti engu breytt þar um. Kröfu um niðurfellingu álags var enn fremur hafnað en að mati dómsins voru engar ástæður uppi sem gætu réttlætt það enda hefði Eimskip, sem væri „umfangsmikið fyrirtæki“, notið aðstoðar sérfræðinga við skattskil sín.
Íslenska ríkið var því sýknað og Eimskip gert að greiða sléttar milljón krónur í málskostnað.