Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, mótmælir nýjustu viðskiptatollum sem Donald Trump hefur lagt á þjóðina. Trump tilkynnti í gær að hann myndi leggja 30% toll á vörur sem fluttar eru inn frá Suður-Afríku frá og með 1. ágúst nk.
Á vef BBC segir að Suður-Afríka sé jafnframt eina Afríkuríkið sem verður fyrir áhrifum á tollabreytingum forsetans og að það endurspegli samband Trump við ríkisstjórn Ramaphosa.
Trump sendi fjölda bréfa í gær til ríkisstjórna 14 landa þar sem hann greindi frá nýjum tollaáætlunum. Ákvörðun forsetans er sögð mikið áfall fyrir Suður-Afríku en Bandaríkin eru næststærsta viðskiptaland þeirra.
„Við höfum haft mörg ár til að ræða viðskiptasamband okkar við Suður-Afríku og höfum komist að þeirri niðurstöðu að við verðum að hætta þessum langtímaviðskiptahalla sem hefur myndast vegna tollastefnu og viðskiptahindrana Suður-Afríku, bæði hvað varðar tolla og aðrar stefnur,“ sagði Trump í bréfi sínu.
Ramaphosa segir að hinn umræddi 30% tollur sem verið er að leggja á Suður-Afríku byggist á ákveðinni túlkun á viðskiptajöfnuðum Suður-Afríku og Bandaríkjanna. Hann segir að meira en helmingur af þeim vörum sem Suður-Afríka flytur inn til Bandaríkjanna sé tollfrjáls og að meðaltollar á afgangi varningsins séu um 7,6%.