Réttast væri að taka upp annan gjaldmiðil þó hægt sé að starfrækja hvaða gjaldmiðil sem er hér á landi, jafnvel krónu.

Þetta segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, í viðtali við Viðskiptablaðið. Eftirfarandi kafli um gjaldmiðlamál rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur hér í heild sinni.

Aðspurður um krónuna segir Einar Örn hana vera of sterka í dag.

„Ef gjaldeyrishöftunum verður aflétt mun hún veikjast til að byrja með en hún færist þá bara nær raunveruleikanum. Í dag erum við með vitlaust verð á öllum hlutum vegna þessa," segir Einar Örn."

Aðspurður um skoðun sína á gjaldeyrismálum segist Einar Örn telja að hér sé hægt að starfrækja hvaða gjaldmiðil sem er, jafnvel krónu.

„Við höfum verið með krónu í heila öld. Við gerum mikið grín af því hvað verðmæti krónunnar hefur rýrnað gagnvart dönsku krónunni frá því að þarna var slitið á milli. Samt hafa lífsgæði hér á þessu tímabili vaxið áþekkt í þessum tveimur löndum á tímabilinu," segir Einar Örn.

„En ég held að við ættum samt að taka upp annan gjaldmiðil. Mér sýnist nú á öllu að við séum ekki að fara inn í Evrópusambandið en ég held að það sé skynsamlegt að huga að upptöku annars gjaldmiðils. Best væri ef það væri í myntsamstarfi og í mínum huga skiptir ekki öllu máli hvaða gjaldmiðill það er, þó svo að evran sé kannski nærtækust. Það mun taka tíma að auka trúverðugleika atvinnulífsins en Íslendingar þurfa sjálfir að hafa trú á verkefninu."