Ársfundur Íslandsstofu var haldinn í gær. Íslandsstofa er sjálfseignarstofnun og samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífisins. Utanríkisráðherra skipar tvo stjórnarmenn, ferðamálaráðherra einn og Samtök atvinnulífsins fjóra.
Fundurinn var upplýsandi um stöðu útflutningsgreinanna en Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, fjallaði ítarlega um stöðu þeirra.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra átti að halda erindi en forfallaðist og í hennar stað kom Óli Örn Eiríksson, aðstoðarmaður ráðherrans.
Óli líkti ræðumönnum og þeim sem sátu í pallborði við fótboltalið, en mynd af þeim öllum blasti við fundarmönnum á veggnum fyrir aftan hann. Þrír voru í efstu röð, fjórir í miðjunni og þrír neðst, líkt og liðsuppstilling í fótboltaliði þó markmanninn vantaði. Þessi samlíking fór vel í fundargesti sem hlógu að aðstoðarmanni ráðherra.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS, samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, tók upp líkingu Óla. Hún sagði:
„Þetta er sannarlega lið sem getur gert ótrúlega hluti en stemmingin inni í klefanum er bara ömurleg. Ég ætla bara að segja það. Einn leikmaður liðsins hefur kýlt annan.“
Heiðrún Lind vísaði þarna til áforma ríkisstjórnarinnar um að tvöfalda veiðigjaldið, sem kynnt voru í vikunni.
Erindi Óla hófst á tímanum 35:25 og panelumræðurnar hófust þegar klukkutími og tíu mínútur vour liðnar af fundinum.