Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að Google hafi brotið gegn samkeppnislögum með einokun sinni á leitarvélarmarkaði.

Að því er segir í frétt Bloomberg hafði Google viðhaldið einokunarstöðu sinni með sérstökum samningum við fyrirtæki á borð við Apple og Samsung þess efnis að Google opnaðist sjálfkrafa í vafra snjallsíma.

Í gegnum tíðina hafi Google eytt um 26 milljörðum dala í slíka samninga og þar með komið í veg fyrir að samkeppnisaðilar næðu árangri á markaðnum.

Hvorki Google né dómsmálaráðuneytið hefur tjáð sig um niðurstöðuna en mögulegt er að ákvörðuninni verði áfrýjað.