Tilboð í tilboðsbók A, sem var eingöngu ætluð einstaklingum með íslenska kennitölu, í útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka námu 88,2 milljörðum króna. Það samsvarar um 97,4% af 90,6 milljarða króna heildarvirði útboðsins.
Áætlað er að þeim hlutum verði úthlutað til 31.274 einstaklinga, með fyrirvara um aðlögun og leiðréttingar, að því er kemur fram í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.
Fram kemur að fjárfestar sem gerðu tilboð í tilboðsbækur B og C stóðu fyrir ríflega hundrað milljörðum króna eða eftirstandandi hluta af heildareftirspurn útboðsins sem nam um 190 milljörðum króna.
„Tilkynningar um úthlutun á þeim hlutum sem eftir standa, að lokinni úthlutun til tilboðsbókar A, verða sendar þeim aðilum miðvikudagsmorguninn 21. maí 2025, með hliðsjón af þeim úthlutunarreglum sem settar hafa verið fram í lögum nr. 80/2024,“ segir í tilkynningunni.
Útboðinu lauk kl. 17 í gær. Rétt fyrir fimmleytið í gær tilkynnti ráðuneytið um að ákveðið hefði verið að stækka útboðið upp í allan 45,2% eftirstandandi hlut ríkisins en til samanburðar náði grunnmagn útboðsins til 20% af hlutafé í bankanum.
Ráðuneytið sagði að ákvörðunin hefði verið tekin í ljósi „umtalsverðrar heildareftirspurnar og fordæmalausrar eftirspurnar innanlands“ í útboðinu.
Viðskiptablaðið fjallaði í gær um hvernig þátttaka einstaklinga var í frumútboði Íslandsbanka sumarið 2021 þar sem ríkið seldi 35% hlut. Þá tóku um 24 þúsund aðilar þátt og einstaklingar fengu úthlutað 33,6% af úthlutunarvirði.