"Meirihluti íslenskra fyrirtækja metur ekki frammistöðu starfsfólks eða stjórnenda með formlegum hætti. Útbreiðsla slíks mats er mun minni hér á landi en í samanburðarlöndum". Þetta er niðurstaða skýrslu sem kynnt var á blaðamannafundi í Háskólanum í Reykjavík í morgun. Skýrslan byggir á svörum 190 stærstu vinnuveitenda á Íslandi og náði rannsóknin bæði til opinbera geirans og einkageirans. Um er að ræða stærstu rannsókn á mannauðsstjórnun sem framkvæmd hefur verið hér á landi.

Skýrslan felur meðal annars í sér greiningu á stöðu íslenskra fyrirtækja hvað varðar þroskastig mannauðsstjórnunar og samanburð við niðurstöður frá öðrum löndum.Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu margt athyglisvert í ljós. Meðal annars að einungis 60% fyrirtækja bregðast við með markvissum hætti þegar starfsfólk nær ekki þeim árangri sem ætlast er til og er formlegt frammistöðumat starfsfólks mun minna notað hér á landi en í samanburðarlöndum okkar. Samkvæmt rannsókninni er opinberi geirinn er að mörgu leyti skemur á veg kominn í mannauðsstjórnun en einkageirinn. Þá er lítið er um að íslensk fyrirtæki noti árangurstengd laun. Hlutabréfakaup, hlutdeild í hagnaði eða annars konar árangurstengd laun eru minna notuð í umbun stjórnenda nú en árið 2003.

Niðurstöðurnar leiða einnig í ljós að vægi starfsmannastjórnunar hefur aukist á síðustu árum í íslenskum fyrirtækjum og þrír af hverjum fjórum starfsmannastjórum sitja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja.

Þá komust skýrsluhöfundar einnig að því að einungis einungis 7% íslenskra fyrirtækja er á þroskastigi þrjú í mannauðsstjórnun, sem kallast árangursrík mannauðsstjórnun en helmingur íslenskra fyrirtækja er á þroskastigi eitt, sem kallast hefðbundin mannauðsstjórnun.