Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum og hagfræði við HÍ og stjórnarmaður hjá Almenna lífeyrissjóðnum, lítur svo á að fari ríkisstjórnin þá leið að setja ÍL-sjóð í þrot jafngildi það greiðslufalli ríkissjóðs.
„Í raun og veru, ef að sjóðurinn er settur í þrot, þá í mínum huga, þá er þetta ekkert annað en greiðslufall hjá ríkissjóði. Þetta er mín persónulega skoðun. Ríkissjóður er í raun að senda skilaboð til fjárfesta að hann noti öll ráð sem í boði eru til að koma sér undan skuldbindingum sínum,“ sagði Már í Kastljósi í kvöld.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti á fimmtudaginn skýrslu um stöðu ÍL-sjóðs. Í henni kemur fram að til að reka ÍL-sjóð út líftíma skulda þyrfti ríkissjóður að leggja honum til um 450 milljarða króna eða um 200 milljarða að núvirði. Ef sjóðnum væri hins vegar slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða og þar með kostnaður ríkissjóðs nema 47 milljörðum.
Gæti „stóraukið“ vaxtakostnað ríkisins
Í kynningu Bjarna eru settir fram þrír valkostir sem ríkissjóður er sagður standa frammi fyrir við úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs. Þeirra á meðal er að knúin verði fram gjaldþrotaskipti með lagasetningu.
Már óttast að þessi valkostur gæti haft í för með sér að lánshæfi ríkissjóðs lækki og að vaxtakostnaður ríkissjóðs gæti „stóraukist. Ég tala nú ekki um ef að lánshæfismatsfyrirtæki fara að vega þetta og meta“.
„Það er ómögulegt að segja til um hvað gerist, því fjárfestar gætu hætt að líta á ríkisbréf sem áhættulausar skuldbindingar.“
Már segist einnig velta því fyrir sér hvort fjármálaráðuneytið hyggist semja við hluta af kröfuhöfum eða hvort hann geti náð samkomulagi fyrir hönd allra kröfuhafa.
„Mér finnst þetta vera frekar snúið mál. Það er ansi mikið af ósvöruðum spurningum.“