Í fjárfestabréfi Financial Times er fjallað um hvort nú sé rétti tíminn til að „kaupa dýfuna“ eftir nýlegar lækkanir á hlutabréfamörkuðum. Sjónarmið bréfsins er skýrt: verð hafa lækkað, en ekki nóg.
Eftir skyndilegan viðsnúning í gær, sem varð til þegar fréttir bárust um að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, íhugaði 90 daga frestun nýtilkynntra tolla, féll markaðurinn aftur þegar Hvíta húsið hafnaði því að slíkt væri í bígerð.
Fjárfestar virðast sárlega vilja trúa því að tollarnir verði ekki að veruleika en óvissan ríkir.
Hlutabréfaverð hefur þó hækkað örlítið í dag en S&P 500-vísitalan hefur lækkað um 18 prósent frá hámarki í febrúar.
Það er vissulega talsvert, en minna en í mörgum fyrri lægðum. Til samanburðar má nefna að vísitalan féll um 20 prósent á fjórða ársfjórðungi 2018, 25 prósent í verðbólguskelfingunni 2022, 33 prósent í heimsfaraldrinum 2020 og rúmlega helming í fjármálakreppunni 2008.
Hröð lækkun og mikill óstöðugleiki benda þó til að tollakreppan sé ekki á enda. Þeir sem sitja á lausafé eða skammtímabréfum, líkt og Warren Buffett, kunna að sjá sóknarfæri en Unhedged varar við því að ganga of langt í bjartsýni.
Grunnvirðismat, eins og hlutfall verðs og hagnaðar (P/E), er nú komið aftur á svipað stig og fyrir heimsfaraldur. Það er þó enn hátt í sögulegu samhengi. Ef fjármálastefna verður hert, eins og sumir innan Trump-stjórnarinnar hafa heitið, gætu hlutabréf skilað lakari langtímaávöxtun en áður.
Hagnaðarforsendur fyrirtækja styðja heldur ekki kaupgleði. Samkvæmt gögnum FactSet hefur sameiginleg hagnaðaráætlun fyrir S&P 500 árið 2025 aðeins lækkað um 7 prósent frá september. Ef tollar verða viðvarandi er líklegt að spárnar lækki meira og þá er núverandi P/E einfaldlega of hátt.
Þegar miðað er við ríkisskuldabréf eru hlutabréf ekki sérstaklega aðlaðandi. Þannig hefur svokölluð CAPE-ávöxtun, sem mælir langtímaávöxtun umfram ríkisvexti, hækkað í en ekki mikið.
Hlutabréf eru einnig metin út frá svokölluðum afsláttarvöxtum, sem endurspegla væntanlega ávöxtun miðað við framtíðarhagnað. Þeir hafa hækkað úr 3,1 prósenti í 3,6 prósent, samkvæmt UBS, en eru enn undir sögulegu meðaltali. Í sögu Bandaríkjanna hefur slíkur vöxtur hækkað í hvert sinn sem stórir tollar hafa verið lagðir á og því gæti markaðurinn enn átt eftir að taka á sig skell.
Verð á stærstu tæknifyrirtækjunum í S&P 500 — með undantekningum eins og Nvidia og Tesla — hafa aðeins skilað sér til baka til ársins 2023. Það bendir til þess að nýlegar lækkanir hafi fremur fært bréf aftur af nýlegum toppum en ekki skapað djúpa lægð.
Í lok bréfsins er vitnað í klassíska grein fjárfestisins Jeremy Grantham frá miðju hruni 2009: Reinvesting When Terrified. Þar hvetur hann fjárfesta til að búa sér til fjárfestingaáætlun áður en óttinn nær yfirhöndinni.
„Leitin að hinum fullkomna tímapunkti er gildra sem leiðir aðeins til lömunar,“ skrifaði Grantham og segir FT að sú ábending kunni að reynast dýrmæt ef markaðirnir halda áfram að veikjast.