Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, stendur fast á því að tillaga hans um að afnema verðbólgureikningsskil lífeyrissjóða með því að fella úr gildi verðtryggingu í tryggingafræðilegu uppgjöri lífeyrissjóðanna og byggja á 3,5% nafnávöxtunarkröfu í stað 3,5% raunávöxtunarkröfu, hafi ekki áhrif á lífeyrisréttindi.

„Réttindi í söfnunarkerfum lífeyrissjóðanna myndast með greiddum iðgjöldum yfir starfsævina og verðmæti þeirra réttinda á hverjum tíma ráðast af ávöxtun og rekstri sjóðanna. Verðtrygging býr þar ekki til nein sérstök réttindi og ekki heldur hvernig réttindum er ráðstafað með því að verðtryggja lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga mánaðarlega,“ segir Benedikt.

Viðskiptablaðið hefur á síðustu dögum fjallað um ofangreinda tillögu, sem Benedikt kynnti á ásamt nokkrum öðrum í erindi á morgunfundi SFF á fimmtudaginn undir yfirskriftinni Íslandsálag og leiðir til að lækka vexti á íbúðalánum. Með tillögunni yrði að hans mati stigið stórt skref í að draga úr vægi verðtryggingar á íslenskum fjármálamarkaði.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, sagði í samtali við blaðið að samhliða því að strika út „raun“ í „raunávöxtunarviðmiði“ við núvirðingu lífeyrisskuldbindinga yrði að strika út heila setningu í lögum um lífeyrissjóði sem kveður á um að: „Mánaðarlegur lífeyrir skal verðtryggður og breytast til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs”.

Ólafur sagði tillögu Benedikts fela í sér um 40% raunskerðingu réttinda hjá Birtu, að því gefnu að tryggingastærðfræðingar myndu taka tillit til 2,5% verðbólgumarkmiðsins á óbreytta kröfu og núvirða skuldbindingar með 1% raunvöxtum vegna verðtryggðra skuldbindinga.

Benedikt þakkar Ólafi fyrir skjót svör við tillögum hans og segir að ákveðin atriði í hans svörum kalla á nánari útskýringu.

„Ef það er rétt sem Ólafur nefndi að aftengja þyrfti verðtryggingu lífeyrisgreiðslna með þessari breytingu þá myndi verðmæti réttindanna samt breytast reglulega í kjölfar tryggingafræðilegs uppgjörs og þá að öðru óbreyttu til hækkunar, væri tryggingafræðileg ávöxtun sjóðanna hærri en 3,5% nafnávöxtun,“ segir Benedikt.

„Það er ekki lögmál að íslenska lífeyriskerfið notist við verðtryggða krónu og það má vel hugsa sér kerfið í íslensku nafnkrónunni líkt og í Danmörku og Hollandi, sem eru þau Evrópusambandsríki sem búa yfir best fjármögnuðu lífeyriskerfunum.“

Geri lífeyrissjóðum kleift að kaupa meira af erlendum eignum

Á fundinum kynnti Benedikt einnig hugmyndir um að fjármagna íbúðalán með útgáfu sértryggðra skuldabréfa í erlendri mynt. Hann segir að ekki hafi komið nægjanlega skýrt fram að Arion sjái fyrir sér að erlendir fjárfestar kaupi fyrst og fremst þessi bréf en ekki íslenskir lífeyrissjóðir.

„Viðskiptin við lífeyrissjóðina snúast eingöngu um gjaldmiðlaskipti – lífeyrissjóðir fá þann gjaldeyri sem bankarnir afla með útgáfu sértryggðu skuldabréfanna í erlendri mynt en afhenda bönkunum krónur í staðinn og síðan er skipst til baka á þessum myntum að sjö árum liðnum – sem gerir lífeyrissjóðum kleift að kaupa meira af erlendum eignum (og þá minna af innlendum) án þess þó að taka af því gjaldeyrisáhættuna. Og bankarnir ná þannig að fjármagna íbúðalánin á hagstæðum kjörum í krónum í þennan sjö ára samningstíma.“

Ólafur nefndi í ofangreindu viðtali við Viðskiptablaðið að mögulegur vandi við þær hugmyndir sem Benedikt kynnti væri að gjaldeyrisáhætta lífeyrissjóða myndi raun breytast í mótaðilaáhættu.

Benedikt segir hins vegar að mótaðilaáhætta þessara gjaldmiðlaskiptasamninga sé takmörkuð með samningum sem nefnast ISDA samningar og eru notaðir alþjóðlega fyrir slík viðskipti.

„Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði í Noregi og Svíþjóð um langt skeið og gefist vel. Þannig hefur sænskum lífeyrissjóðum tekist að dreifa mun betur úr eignasafni sínu sem er nú aðeins um 30% fjárfest í verðbréfum í sænskum krónum þó að gjaldeyrisáhætta sem sjóðirnir taki sé minni, eða 50%.

Þessi nálgun gæti því stuðlað að mun meiri áhættudreifingu fyrir bæði lífeyrissjóðina og bankana án þess að stofna til sérstakrar mótaðilaáhættu fyrir lífeyrissjóðina.“

Að lokum segir Benedikt að markmiðið með því að velta þessum atriðum upp sé einmitt til að skapa umræðu um verðtrygginguna og hvort við viljum ræða leiðir til þess að draga úr vægi hennar í íslenska hagkerfinu.