Allir átta umsagnaraðilar sem skiluðu inn umsögnum við frumvarpi Jóns Gunnarssonar um breytingar á myndlistarlögum mótmæla þeirri tillögu að fella brott ákvæði um skyldu hins opinbera til að verja að minnsta kosti 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka í henni og umhverfi hennar.
Meðal umsagnaraðila sem mótmæla frumvarpinu eru Listskreytingasjóður ríkisins, Listaháskóli Íslands, Bandalag íslenskra listamanna, Samband íslenskra myndlistarmanna, Samtök arkitektastofa (SAMARK) og Myndstef – Myndhöfundasjóður Íslands.
Listaverkakaup fyrir nýjan Landspítala yrði yfir 2 milljarðar
Ljóst er af greinargerð frumvarpsins að því er einkum ætlað að bregðast við áhrifum 14. greinar myndlistarlaga, um að verja skuli 1% af heildarbyggingarkostnaði opinberrar nýbyggingar til listaverka, á kostnað uppbyggingar nýs Landspítala sem er ein stærsta byggingaframkvæmd Íslandssögunnar og stærsta einstaka fjárfesting ríkisins í sögunni.
Í greinargerðinni er bent á að áætlaður heildarbyggingarkostnaður nýs Landspítala sé 210 milljarðar króna. Í því tilviki yrði hinu opinbera skylt að fjárfesta í listaverkum fyrir að lágmarki 2,1 milljarð króna.
„Að mati flutningsmanna er ekki unnt að réttlæta slík fjárútlát til listaverkakaupa fyrir eina byggingu,“ segir í greinargerð frumvarpsins sem Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Diljá Mist Einarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Njáll Trausti Friðbertsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, lögðu fram í mars.
Telja að hlutfallið á nýja Landspítalanum ætti að vera yfir 1%
Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) kveðst sammála flutningsmönnum frumvarpsins um að ekki eigi að láta eina reglu gilda um kaup á listaverkum í nýbyggingum fyrir opinberar stofnanir, í ljósi fjölbreytileika þeirra og mismikils byggingarkostnaðar.
„Lögin gera ráð fyrir því að ef aðstæður eru slíkar megi verja meir en 1% til listaverkakaupa. Við teljum því að lögin fullnægi þessari hugmynd flutningsmanna og, í ljósi mikilvægis listaverka á sjúkrahúsum, þætti ekki óskynsamlegt að Alþingi ályktaði að verja meir en 1% í listskreytingu vegna Nýs Landspítala, enda leiddi slík fjárfesting án efa til lækkunar á öðrum kostnaði við rekstur sjúkrahússins,“ segir í umsögn SÍM sem Hlynur Helgason, varaformaður sambandsins, skrifar undir.
„Það er ljóst af texta laganna að 1% átti að eiga við þar sem minnst þörf væri talin á listskreytingum en að sjálfsagt væri, að mati Alþingis, að veita meira til listskreytinga þar sem ljóst væri að almenningur nyti þeirra betur, eins og til dæmis í sjúkrastofnunum.“
Í umsögn sinni bendir SÍM á að fyrsti áfangi Nýs Landspítala hljóði upp á fjórar byggingar með heildarfermetrafjöldi upp á 111 þúsund fermetra.
SÍM segir huglægt mat flutningsmanna, um að listaverk hafi hvorki áhrif á notkunarmöguleika byggingarinnar né þá starfsemi sem byggingin hýsir, sé rangt og byggi á vanþekkingu. Þvert á móti segir sambandið að fjárfesting í listaverkum hafi verulega jákvæð áhrif á notkunarmöguleika byggingarinnar og þá starfsemi sem hún hýsir.
„Sérfræðingar í heilbrigðismálum geta staðfest að listaverk eru sérlega mikilvæg til þess að skapa fjölbreytt og lifandi umhverfi á sjúkrahúsum.
Rannsóknir sýna að listaverk eru mikilvæg til þess (1) að draga úr streitu bæði sjúklinga og starfsmanna, (2) þau geta leitt til styttingar sjúkrahúsdvalar, (3) þau draga úr þörf á lyfjagjöf við þjáningu og efla þol við þjáningu, (4) þau eiga sinn þátt í að draga úr vandkvæðum eftir aðgerð og (5) hvetja til jákvæðra tilfinninga og skapa tilfinningatengsl sem styðja við bata.“
Þá segir SÍM fullyrðingu í greinargerð frumvarpsins, um að fagurfræðilegt mat sé alltaf háð persónulegri skoðun hvers og eins og að ómögulegt sé því að slá því föstu að tiltekið listaverk sé betra eða fegurra en önnur, vera beinlínis ranga og jaðri við atvinnuróg.
Listskreytingasjóður ríkisins segir 1% framlagið nýtt af fagmennsku
Stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins, sem hefur það að markmiði að fegra opinberar byggingar og umhverfi þeirra með listaverkum, leggst eindregið gegn frumvarpinu.
Listskreytingasjóðurinn segir vert að hafa í huga að með orðinu listaverk sé átt við listaverk og hluti sem fegra nýbyggingar og umhverfi þeirra. Þetta geti verið eiginlegir hlutar bygginga þar sem arkitektar, hönnuðir og listamenn vinna saman þar sem afraksturinn birtist í ásýnd bygginga og umhverfi þeirra.
„Á þetta sérstaklega við þegar um stórar og dýrar framkvæmdir er að ræða. Sem dæmi um slíkar byggingar má nefna Hörpu, Sjúkrahótel við Landspítala og Eddu hús íslenskra fræða þar sem 1% framlagið hefur verið nýtt af fagmennsku til að auka gæði nýbygginga.“
Hvað Landspítalann varðar bendir Listskreytingasjóðurinn að Framkvæmdasýsla - Ríkiseignir og einkafélög fari með þá fjármuni sem skilgreindir eru í lögum sem 1% framlag til listskreytinga í nýbyggingum á vegum ríkisins. „Ekki má ætla annað en vel sé farið með þessa fjármuni og þeir nýttir af ábyrgð og skynsemi.“
Í umsögninni er einnig vísað í myndlistarstefnu stjórnvalda til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi í fyrra sé kveðið á um sértaka aðgerð um þessar endurskoðun á fyrirkomulagi listar í opinberu rými og fyrirkomulagi Listskreytingasjóðs í samráði við Myndlistarráð, Samband íslenskra myndlistarmanna, Myndlistarmiðstöð, Listasafn Íslands, Arkitektafélag Íslands og Framkvæmdasýsluna - Ríkiseignir.
Ráðuneytið hafi falið stjórn Listskreytingarsjóðs að leiða vinnu við umrædda endurskoðun. Reiknað sé með að endurskoðun ljúki síðla árs 2025 með tillögu til Menningar- og viðskiptaráðuneytisins með breytingum á skipulagi og framkvæmd við að koma fyrir list í opinberum nýbyggingum.
Listaháskólinn: „Augljós afturför“
Í umsögn Listaháskóla Íslands (LHÍ), sem rektorinn Kristín Eysteinsdóttir skrifar undir, segir að það væri „augljós afturför“ að fella niður 14.grein laganna sem kveður á um ofangreind 1% framlag.
Að sama skapi segir rektorinn að frumvarpið feli í sér aðför að markmiði laganna sem sé ætlað að standa vörð um íslenska myndlist og gera henni kleift að þrífast í landinu.
„Það hljóta einnig að vera almannahagsmunir að hið opinbera sé í fararbroddi þegar kemur að því að fegra umhverfi bygginga og glæða það listrænu lífi. Þetta er gert með því að gera ráð fyrir að ákveðið prósentuhlutfall af heildarkostnaði við gerð nýbygginga sér varið í gerð listaverka eins og gert er í núgildandi lögum. Með því hefur verið búið til gagnsætt og einfalt viðmið sem mikilvægt er að standa vörð um.“
Arkitektar alfarið á móti frumvarpinu
Samtök arkitektastofa leggjast alfarið gegn þeirri fyrirætlan að fella brott 14. gr. myndlistarlaga. Samtökin telja fullyrðingar í greinargerð frumvarpsins lýsa vanþekkingu og skilningsleysi á tilgangi listar í almannarýmum.
„List í almannarými hefur tilgang í sjálfri sér og hafa þjóðarleiðtogar skilið það hlutverk hennar í árþúsundir.“
Samtökin eru ósammála þeirri fullyrðingu þingmannanna að gæði listaverka séu eingöngu byggð á huglægu mati en fagurfræðilegt mat sé ávallt háð persónulegri skoðun hvers og eins og því ómögulegt að slá því föstu að tiltekið listaverk sé betra eða fegurra en önnur.
„Ef [fullyrðingin] ætti við rök að styðjast yrði að telja til lítils gagns að starfrækja listfræðikennslu hér á landi. Þess má geta að alþjóðlegt efnahagskerfi myndlistar velti tæplega 9400 ma.kr. árið 2022 eða um sexföldum fjárlögum næsta árs,“ segir í umsögn Samtaka arkitektastofa.
„Þeir alþjóðlegu fjárfestar og stofnanir sem eru þátttakendur í því skilja að á bak við virði listar liggur flókið net matskerfa og fagmennsku sem tryggir að fjárfestingin er traust, markviss og skynsöm og skilar víðari virðisauka en hinum fjárhagslega. Gera þarf greinarmun á persónulegum smekki einstaklinga og gæðamati lista.“
Segja aldrei hafa verið staðið við lögbundin framlög
Bandalag íslenskra listamanna bendir í umsögn sinni á að sú reikniregla um að lágmarksframlag til listskreytinga upp á 1% af byggingarkostnaði hafi verið lögfest frá árinu 1982.
„Vandséð er hvernig sú lausn að fella lágmarksfjárhæðarmarkið niður muni leiða til þess að auðvelda framkvæmd listskreytinga til framtíðar litið, sem nógu erfið var fyrir, enda engir mælikvarðar í frumvarpinu um það hvað stuðst skuli við við listskreytingar í opinberum byggingum ef til samþykktar frumvarpsins kæmi.“
Myndhöggvarafélagið í Reykjavík segir í sinni umsögn að allt frá því Listskreytingasjóður ríkisins var stofnaður fyrir nokkrum áratugum síðan og fram á þann dag að Myndlistarlög voru samþykkt á Alþingi árið 2013 hafi aldrei staðið við lögbundin framlög til sjóðsins.
„Sjóðurinn var felldur undir hin nýju lög og enn gildir sama hirðu- og dáðleysið í málefnum hans. Það er fyrst núna þegar umtal um að mögulega þurfi að standa við gefin loforð og fara eftir þeim lögum sem hafa verið sett, að það er komin tillaga um að fella þessi lagaákvæði út svo ekki þurfi að fara að þessum lögum.“