Viðskiptaráð hefur sent Daða Má Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, bréf vegna tvísköttunar fjárfestinga á milli fyrirtækja í gegnum verðbréfasjóði.
Fjallað er ítarlega um málið í Viðskiptablaðinu. Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að fyrirtæki eigi ekki að þurfa að selja sig út úr fjárfestingum til að borga skatta af hagnaði, sem þau hafi ekki fengið greiddan. Það sé eins og að rukka bónda fyrir egg sem hænan hafi ekki ennþá verpt.
Áhrifin á ríkissjóð hverfandi
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að skattalöggjöfinni sé breytt til að koma í veg fyrir þessa tvísköttun svarar Björn Brynjúlfur: „Það krefst þess að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp. Þess vegna skrifuðum við honum bréf þar sem við hvetjum hann til aðgerða. Þetta er tæknileg en ekki pólitísk breyting og áhrifin á ríkissjóð eru hverfandi. Umræðan hefur verið á einn veg svo ég leyfi mér að vera bjartsýnn.
Ef við viljum tryggja hagkvæma miðlun fjármagns, öflugt fjárfestingarumhverfi og samkeppnishæft skattkerfi, þá er brýnt að gera úrbætur. Þessi tvískattlagning bitnar ekki bara á fjárfestum, heldur dregur hún einnig úr fjárfestingu og veldur þannig allra tapi.“
Undanþágur í Danmörku
Í Danmörku fá fyrirtæki undanþágu frá skatti af hagnaði, sem þau fá vegna eignarhluta í öðrum félögum (d. Deltagelsesfritagelsesmetoden). Nær þetta bæði til arðgreiðslna og söluhagnaðar af hlutabréfum.
Fyrir þessu eru ákveðin skilyrði. Fyrirtæki þarf að eiga minnst 10% hlut í hinu félaginu í að minnsta kosti eitt ár samfleytt. Þá þarf eignarhluturinn að vera í félagi, sem er staðsett í landi innan Evrópusambandsins eða á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig má eignarhluturinn vera í félagi frá landi, sem er með tvísköttunarsamning við Danmörku.
Um síðustu áramót var þessi undanþága til að fresta skattlagningu vegna fjárfestinga í öðrum fyrirtækjum útvíkkuð, sem dæmi nær hún nú einnig til fyrirtækja sem eiga undir 10% í óskráðum félögum. Var þetta gert til þess að hvetja til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Ástæða breytinganna um síðustu áramót var að stjórnvöld vildu gera danskt skattkerfi samkeppnishæfara þegar kemur að fjárfestingum og uppbyggingu fyrirtækja og koma í veg fyrir tvískattlagningu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.