Eldgos er hafið á Reykjanesskaga en Veðurstofa Íslands staðfestir þetta við mbl.is. Mikill reykur stígur upp úr hlíðum við Litla-Hrút af Reykjanesi líkt og sjá má á vefmyndavél RÚV.
Jarðskjálftahrina hófst á þriðjudaginn síðasta, 4. júlí. Nokkur þúsund skjálftar hafa riðið yfir síðustu daga.
Jarðfræðingar hafa spáð gosi síðustu daga og talið kviku vera að safnast saman á svipuðum slóðum og á undanförnum árum. Í tilkynningu sem Veðurstofa Íslands birti í gærkvöldi segir að skjálftahrinuna megi rekja til kvikuinnskots á milli Fagradalsfjalls og Keilis, rétt norðan við staðsetningu kvikuinnskotsins sem varð í júlí-ágúst 2022.