Rautt er yfir að litast í Kauphöllinni eftir fyrstu viðskipti dagsins. Þegar þetta er skrifað hefur gengi 16 félaga af 20 sem skráð eru á aðalmarkaði lækkað.
Icelandair hefur lækkað langmest allra fyrirtækja á aðalmarkaði, um 10%. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,6 krónum á hlut. Gengi bréfa Play hefur einnig lækkað um rúm 7% frá opnun. Bankarnir á markaði hafa jafnframt allir lækkað. Arion banki um 4%, Íslandsbanki um 2,5% og Kvika banki um 5,5%.
Gengi bréfa Marel hefur auk þess lækkað um 5,7% þegar þetta er skrifað, en gengi bréfa félagsins hefur lækkað um tæp 25% frá áramótum. Gengi bréfa Sýnar hefur lækkað um 6%, en félagið hefur lækkað um 16% frá áramótum þegar þetta er skrifað.
Úrvalsvísitalan OMXI10 hefur lækkað um tæp 5% frá opnun en heildarvelta viðskipta það sem af er dags hefur numið einum milljarði króna.