Elín Jónsdóttir, fyrrverandi forstjóri Bankasýslu ríkisins, hefur tekið sæti í stjórn Eyris Invest. Steinunn Jónsdóttir hætti í kjölfarið sem varamaður í stjórn.
Aðalfundur Eyris Invest var haldinn í hádeginu í dag. Þar voru m.a. ársreikningur og ársskýrsla félagsins samþykkt.
Elín tók við sem forstjóri Bankasýslunnar í byrjun árs 2010 en sagði því lausu í ágúst í fyrra. Hún ræddi um ráðningaferli stjórnarmanna á fundi Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og efnahags- og viðskiptaráðuneytis um góða stjórnarhætti og kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja. Þar fór hún m.a. yfir mikilvægi faglegrar ráðningar stjórnarmanna.
Elín er jafnframt stjórnarmaður í iðnfyrirtækinu Promens.