Embla Medical, móðurfélag Össurar, hagnaðist um 69 milljónir dala eða um 9,5 milljarða króna árið 2024 sem samsvarar 17% aukningu frá fyrra ári. Hagnaðurinn nam um 8% af veltu ársins en til samanburðar var sama hlutfall 7% árið 2023.

Embla hagnaðist um hagnaðist um 19 milljónir dala eða um 2,6 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi. Félagið birti ársuppgjör í morgun.

Sala samstæðunnar á fjórða ársfjórðungi nam 225 milljónum dala eða um 31 milljarði króna sem samsvarar 8% vexti í staðbundinni mynt og 5% innri vexti. Innri vöxtur fyrir árið 2024 var 6% og vöxtur í staðbundinni mynt 9%.

Fram kemur að á síðasta fjórðungi hafi verið 12% innri vöxtur í sölu á stoðtækjum, 2% á spelkum og stuðningsvörum, og sala í þjónustu við sjúklinga dróst saman um 1%. Fyrir árið 2024 var innri vöxtur í sölu á stoðtækjum 9%, 1% á spelkum og stuðningsvörum og 5% í þjónustu við sjúklinga.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) fyrir einskiptisliði á árinu 2024 jókst um 24% og nam 173 milljónum dala eða um 24 milljörðum króna, sem samsvarar 20% af veltu samanborið við 18% af veltu árið 2023.

Fjárhagsáætlun Emblu fyrir árið 2025 er 5-8% innri vöxtur og 20-21% EBITDA framlegð að teknu tillit til einskiptisliða.

Fyrir árið 2024 var innri vöxtur 6%, drifinn áfram af góðri frammistöðu í Evrópu ásamt sölu á stoðtækjum og þjónustu við sjúklinga á alþjóðavísu. Það er mikilvæg stoð í stefnu fyrirtækisins að fjárfesta í nýsköpun, sem einnig drífur áfram vöxt, og það er því einstaklega ánægjulegt að sjá afrakstur þess á árinu þar sem við kynntum fjölda nýrra lausna til leiks, þar á meðal tvær nýjar hátæknivörur í flokki stoðtækja,“ segir Sveinn Sölvason, forstjóri Emblu.

„Á síðasta ári tókum við stór skref í frekari þróun á fyrirtækinu. Við keyptum fyrirtækið Fior & Gentz í janúar sem gerði okkur kleift að styðja við einstaklinga sem hafa skerta hreyfigetu sökum tauga- og vöðva sjúkdóma á borð við heilablóðfall, mænuskaða og MS, við kynntum vörumerkið ForMotion til leiks til að sameina stoðtækjaverkstæðin okkar á heimsvísu og settum á markað nýjar hátæknivörur sem bæta enn frekar hreyfanleika þerra einstaklinga sem þurfa á okkar vörum og þjónustu að halda, svo eitthvað sé nefnt. Ég er mjög ánægður með þann árangur sem hefur náðst og hlökkum við til að bæta hreyfigetu enn fleiri á komandi árum.“