Hagnaður Jarðbaðanna við Mývatn nam 392 milljónum króna á síðasta ári og ríflega tvöfaldaðist frá fyrra ári. Rekstrartekjur námu rúmlega 1 milljarði króna í fyrra, samanborið við 582 milljónir króna árið áður.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi kemur fram að félagið hafi hafið byggingu nýs baðhúss á lóð félagsins á fyrri hluta síðasta árs og áætlað sé að framkvæmdum verði lokið á seinni hluta árs 2024. Áætlaður framkvæmdakostnaður nemi um 2,7 milljörðum króna.
Búið sé að tryggja fjármögnun vegna framkvæmdanna. Einnig liggi fyrir frekari fjárfestingarþörf í húsnæði handa starfsfólki félagsins, samhliða uppbyggingaráformum félagsins vegna nýs baðhúss, þar sem ekki sé nægjanlegt framboð af húsnæði í sveitarfélaginu.
Í skýringu í ársreikningnum kemur fram að ákveðið hafi verið að hefja framkvæmdir við nýtt og stærra baðhús og baðlón á svæði félagsins þar sem núverandi aðstaða anni vart lengur þeim mikla fjölda gesta sem sæki jarðböðin, sérstaklega á háannatíma. Auk þess sé húsnæði félagsins orðið úr sér gengið og því ljóst að grípa verði til aðgerða til að mæta sívaxandi fjölda gesta.
Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast veffréttaútgáfu kl. 19.30 í kvöld með því að smella á Blöðin efst á forsíðu vb.is.