Minnisblað fjármálaráðuneytisins um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra um hækkun á endurgreiðsluhlutfalli til kvikmyndagerðar fyrir stór verkefni úr 25% í 35% hefur verið birt á vef Alþingis. Óhætt er að segja að ófriður myndaðist á milli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Lilju eftir að fjölmiðlar sögðu frá innihaldi minnisblaðsins fyrr í mánuðinum.
„Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur vert að benda á nokkra vankanta á frumvarpinu í óbreyttri mynd, þá sérstaklega að um ófjármagnað frumvarp er að ræða og fjárheimildir því ekki til staðar til að mæta þeim kostnaðarauka sem frumvarpið hefur í för með sér,“ segir í minnisblaðinu.
Sjá einnig: Auka stuðning við kvikmyndagerð
Fjármálaráðuneytið segir frumvarpið vera ófjármagnað, bæði á yfirstandandi ári og á tíma fjármálaætlunar fyrir árin 2023-2027.
Í greinargerð frumvarpsins var gert ráð fyrir að endurgreiðslur til kvikmyndagerðar hækki um 300 milljónir króna árlega á tíma fjármálaætlunar til að bregðast við auknum útgjöldum í kjölfar lagabreytinganna. „Rétt er að fjárheimild hækki um 300 milljónum varanlega á tímabili fjármálaáætlunar en sú aukning er til að bregðast við veikleikum í núverandi kerfi þar sem endurgreiðsluhlutfallið er 25%,“ segir fjármálaráðuneytið.
Bent er á að í fjárlögum ársins 2022 er fjárheimild til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar í ár nemur 1.453 milljónum en áætluð endurgreiðsla á árinu samkvæmt veittum vilyrðum nema 4.247 milljónum, eða nærri 2,8 milljörðum yfir fjárheimild.
„[Fjármálaráðuneytið] vill einnig benda á að hækkun endurgreiðsluhlutfalls í 35% fyrir afmörkuð verkefni auki á núverandi vanda um sjálfvirkni í útgjaldavexti kerfisins. Ef vilji er að hækka endurgreiðsluhlutfall þurfa að vera strangari skilyrði við veitingu vilyrða svo væntar endurgreiðslur rúmist innan fjárheimilda. Með því að stöðva sjálfvirkni kerfisins er fjárveitingarvald Alþingis tryggt,“ segir í minnisblaðinu.
Frumvarpið ekki unnið í samstarfi
Fjármálaráðuneytið bendir á að almennt sé gert ráð fyrir tveimur vikum til yfirferðar frumvarpa. Endanlegt frumvarp Lilju hafi hins vegar borist 10. maí og framlagning frumvarps boðuð þann 13 maí „og tími til rýni því ónægur“. Auk þess hafi starfshópur verið skipaður til að vinna frumvarpið en vegna flýtingar málsins var það „alfarið unnið af menningar- og viðskiptaráðuneyti en ekki í því samstarfi sem til stóð“.
Lilja vísaði gagnrýni fjármálaráðuneytis á bug og sagðist hafa átt í fullu samráði við fjármálaráðherra við framlagningu frumvarpsins.
„Þessi umsögn er það vanreifuð að ég taldi að það væri mikilvægt að bregðast við henni. Og það höfum við gert; ég fór ásamt mínu starfsfólki á fund atvinnuveganefndar og fór yfir þau hagrænu áhrif sem kvikmyndageirinn hefur á Íslandi,“ hafði Vísir eftir Lilju í byrjun júní.