Fjártæknifyrirtækið Meniga er í hópi þeirra íslensku sprotafélaga sem hefur náð hvað mestum árangri. Fyrirtækið, sem verður fimmtán ára á næsta ári, stækkaði ört og voru starfsmenn þess hátt í tvö hundruð talsins um tíma.

Á síðastliðnum 2-3 árum hefur fyrirtækið þó siglt í gegnum ákveðinn ólgusjó eftir að fyrri vaxtaráform fyrirtækisins gengu ekki eftir. Nú er aftur farið að birta til hjá Meniga sem hefur unnið hörðum höndum að endurskipulagningu á rekstrinum og segjast forsvarsmenn fyrirtækisins að stefnan sé að verða leiðandi á sínu sviði á heimsvísu.

Á næstu dögum er von á tíðindum um fjármögnun hjá félaginu sem mun styðja við áform um vöxt á breiðari grunni en áður. Umrædd fjármögnun kemur til viðbótar við fjárhagslega endurskipulagningu í sumar sem hafði í för með sér að félagið er nær skuldlaust í dag, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í sumar.

Í sumar tók Dheeraj (Raj) Soni við sem forstjóri Meniga. Eitt af hans fyrstu verkum var að ráðast í stefnumótunarverkefni sem fékk nafnið „Meniga enduruppgötvað“. Þar var lagt upp með að skilgreina nánar styrkleika og kjarnastarfsemi fyrirtækisins og ákveða hvernig best sé að byggja ofan á þessum grunni og sækja fram.

„Þetta snerist í raun um að einfalda okkar skilgreindu starfssvið, einblína meira á styrkleikana okkar og stækka vöruframboðið okkar svo við getum starfað á stærri markaði. Auk þess verður reksturinn að vera arðbær. Ég er afar ánægður með hvernig okkur miðar áfram og tel að við séum nú aftur farin að einsetja okkur að sigra markaðinn,“ segir Soni og bætir við að Meniga hafi landað nýjum samningum við erlend fyrirtæki sem stefnt er að tilkynna um á fyrri hluta næsta árs. Meniga er í dag með viðskiptavini í fleiri en 30 löndum.

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali, í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið, við Soni og Ásgeir Örn Ásgeirsson, einn stofnenda Meniga, um endurskipulagningu á rekstri félagsins. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.