Áformum Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að breyta tollflokkun pítsaosts íblönduðum jurtaolíu aftur til fyrra horfs hefur verið frestað eftir að hagsmunasamtök landbúnaðar- og matvælaframleiðenda mótmæltu áformunum harðlega.
Skatturinn ákvað árið 2020 að færa pítsaostinn í 4. kafla tollskráningar í stað 21. kafla. Það var gert þvert á álit Evrópusambandsins og Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO). Tollflokkunin gerir innflutning ostsins nær ómögulegan.
Evrópusambandið setti Ísland á lista yfir viðskiptahindranir og verður Ísland þar á meðan ríkisstjórnin frestar málinu áfram. Þá er Ísland einnig til rannsóknar hjá eftirlitsstofnun EFTA vegna málsins en umræddur pítsuostur er fluttur inn frá Belgíu og fellur því undir lög um Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir afar sérstakt að málinu hafi verið frestað.
„Það er augljóst að það er mikill þrýstingur úr landbúnaðinum um að þetta verði ekki gert. Okkur fannst sérkennilegt að annar ráðherra fyrir hönd fjármálaráðherra skyldi tilkynna um frestun á þessum áformum þremur dögum áður en frestur til að skila inn umsögn rann út,“ segir Ólafur.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra greindi frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hætta við áform fjármálaráðherra eftir samtal við hagsmunasamtök bænda. Hún sagðist hafa átt samtal við Daða Má og í kjölfarið hafi hann ákveðið að afturkalla áform sín.
Ólafur segir sérstakt að slíta samráðsferlinu í samráðsgátt með þessum hætti þar sem FA hafi alltaf haldið ferlið snerist um að sækjast eftir umsögnum og síðan meta framhaldið á grundvelli þeirra.
„Okkur hefði fundist það hinn eðlilegi framgangsmáti,“ segir Ólafur.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði