Áformum Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að breyta tollflokkun pítsaosts íblönduðum jurtaolíu aftur til fyrra horfs hefur verið frestað eftir að hagsmunasamtök landbúnaðar- og matvælaframleiðenda mótmæltu áformunum harðlega.

Skatturinn ákvað árið 2020 að færa pítsaostinn í 4. kafla tollskráningar í stað 21. kafla. Það var gert þvert á álit Evrópusambandsins og Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO).

Tollflokkunin gerir innflutning ostsins nær ómögulegan. Evrópusambandið setti Ísland á lista yfir viðskiptahindranir og verður Ísland þar á meðan ríkisstjórnin frestar málinu áfram.

Þá er Ísland einnig til rannsóknar hjá eftirlitsstofnun EFTA vegna málsins en umræddur pítsaostur er fluttur inn frá Belgíu og fellur því undir lög um Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir afar sérstakt að málinu hafi verið frestað.

„Það er augljóst að það er mikill þrýstingur úr landbúnaðinum um að þetta verði ekki gert. Okkur fannst sérkennilegt að annar ráðherra fyrir hönd fjármálaráðherra skyldi tilkynna um frestun á þessum áformum þremur dögum áður en frestur til að skila inn umsögn rann út,“ segir Ólafur.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra greindi frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hætta við áform fjármálaráðherra eftir samtal við hagsmunasamtök bænda.

Hún sagðist hafa átt samtal við Daða Má og í kjölfarið hafi hann ákveðið að afturkalla áform sín. Ólafur segir sérstakt að slíta samráðsferlinu í samráðsgátt með þessum hætti þar sem FA hafi alltaf haldið að ferlið snerist um að sækjast eftir umsögnum og síðan meta framhaldið á grundvelli þeirra.

„Okkur hefði fundist það hinn eðlilegi framgangsmáti,“ segir Ólafur. Hann væntir þess að FA fái að taka þátt í áframhaldandi samráðsferli sem væntanlega verður þá „meira á dýptina“ en það sem fer fram í gegnum samráðsgátt.

„Við bíðum þá bara eftir því að fjármálaráðuneytið kalli okkur og aðra hagaðila á fund og óski eftir gögnum. Við erum tilbúin með ítarleg gögn og rökstuðning fyrir okkar afstöðu,“ segir Ólafur.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í fyrra voru lögð fram gögn í málaferlum Danól ehf. gegn íslenska ríkinu sem sýndu fjölmarga tölvupósta MS, Skattsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins í aðdraganda ákvörðunarinnar að breyta tollflokkuninni.

Líkt og sjá má í hliðarefni segja íslenskir veitingamenn að upp hafi komið ítrekuð gæðavandamál vegna staðgengilsvörunnar sem er boðið upp á hérlendis í stað innflutta pítsaostsins, svo sem myglu, stökkri áferð og litabreytingar.

Spurður um umsögn veitingamanna í málinu segir Ólafur það sýna með skýrum hætti það sem FA hefur verið að benda á í þessu máli.

„ Einokunarfyrirtækið Mjólkursamsalan verður að hafa samkeppni. Ef MS situr eitt á þessum markaði eins og fyrirtækið hefur gert nú undanfarin ár þá er enginn hvati til að bjóða hagstætt verð eða fara í vöruþróun og mæta óskum viðskiptavina. Þeim er bara boðið upp á það sem einfaldlega hefur alltaf verið til og á því verði sem MS sýnist,“ segir Ólafur

„Þetta eru stórir hagsmunir. Ekki bara hjá innflutningsfyrirtækjunum sem við höfum verið að tala fyrir heldur einnig hjá fyrirtækjum í veitingageiranum og matvælaiðnaði. Síðan eru að sjálfsögðu stórir hagsmunir neytenda undir. Hagstæðara verð á betra hráefni er alltaf hagur neytenda,“ segir Ólafur.