Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur segir lóðaskort í Reykjavík ekki vera ástæðu fyrir húsnæðisskorti og sendir verktökum kaldar kveðjur fyrir að vera ekki að byggja meira, þrátt fyrir núverandi hávaxtarumhverfi.
Hann kastaði einnig fram hugmyndinni um að borgin kæmi inn á framkvæmdarmarkaðinn með stofnun Byggingarfélags Reykjavíkur ef ekkert breytist.
Einar var gestur í pallborðsumræðum á Viðskiptaþingi í gær ásamt Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Snorri Másson, ritstjóri Ritstjórans, stýrði umræðunum en undir lok umræðu um útlendingamál skaut Einar inn spurningu um húsnæðismálin. „Það koma þúsund manns á mánuði. Hvar á þetta fólk að búa?“
Snorri svaraði um hæl hvort það væri ekki ráðlegt að útdeila fleiri lóðum til að byggja og uppskar lófaklapp fyrir.
„Á þessu kjörtímabili höfum við tvöfaldað lóðaframboðið. Allt sem er byggingarhæft selst svona,“ sagði Einar og smellti fingrum.
Vill sjá verktaka taka á sig tapið
Einar sagði síðan að staðan væri allt önnur í dag eftir að vextir hafi hækkað ört.
„Hvað gerist síðan? Menn bíða. Af því að vaxtarstigið er hátt og menn treysta sér ekki til að framkvæma. Gott og vel. Ég man ekki til þess að þegar Ásgeir seðlabankastjóri lækkaði vextina niður í nánast núll og verktakarnir, fasteignafélögin og þeir sem voru að byggja nutu þess að vera á lágum vöxtum og þá hækkaði fasteignaverðið. Þeir létu íbúðareigendur eða kaupendur ekki njóta þess í einni einustu krónu að búa við lágvaxtarumhverfi,“ sagði Einar.
„Svo þegar vextirnir hækka. Þá bara henda þeir hömrunum í bílskúrinn og bíða. Við erum hérna með neyðarástand á húsnæðismarkaði og ég höfða til þessa salar hérna hvernig ætlum við að byggja upp samfélag þar sem fólk býr við húsnæðisöryggi. Hlýtur það ekki að vera samfélagsábyrgð fjármálastofnana sem lána framkvæmdarlánin og þeirra sem byggja að þó að það harðni aðeins á dalnum að menn haldi áfram að byggja,“ sagði Einar.
Yfirskrift Viðskiptaþings í ár var Hið opinbera: Get ég aðstoðað?. Á þinginu var fjallað um gríðarlegt umfang ríkisins á sviðum sem einkaaðilar geta hæglega sinnt.
„En af því við erum að tala um hlutverk hins opinbera, er þá svarið að Reykjavíkurborg opni bara Byggingarfélag Reykjavíkur? Og byggi þetta sjálf. Því við eigum lóðirnar, það skortir ekki lóðir,“ sagði Einar.
„Það er enginn sem klappar fyrir því en við þurfum að hugsa hvernig við ætlum að taka á móti þessum hópi sem vill búa hérna og verður að búa hérna því við þurfum vinnuaflið. Ef fjármálastofnanir og verktakageirinn taka sig ekki á og eru tilbúinn til að byggja þó að þau hagnist aðeins minna á því þá getur maður ekki skoðað það öðruvísi en að það sé ákall á sveitarfélögin byggi bara sjálf,“ sagði Einar að lokum.