Samkvæmt nýjustu tölum frá kínverska ráðningarfyrirtækinu Beijing International Talent Exchange hefur fjölda erlendra starfsmanna í kínversku höfuðborginni fækkað um 40% undanfarinn áratug.
Árið 2014 störfuðu rúmlega 37 þúsund útlendingar í Peking en nú eru þeir um 22 þúsund. Erlendir starfsmenn í langtímastöðum samsvara nú aðeins 0,2% af heildarvinnuafli borgarinnar.
Þá hefur einnig orðið töluverð breyting á upprunalöndum þeirra sem starfa í borginni. Hlutfall Evrópubúa og Bandaríkjamanna í Peking hefur farið úr 16% niður í 12% frá árinu 2019 en fjöldi Afríkubúa hefur aftur á móti hækkað úr 26% í 31%.
Árið 2012 byrjuðu kínversk stjórnvöld að laða til sín fleiri erlenda sérfræðinga með því að auðvelda umsóknarferli fyrir dvalarleyfi og auka þjónustu fyrir útlendinga.
Bæði stjórnvöld og fyrirtæki fjárfestu háum upphæðum í þessari herferð og var þróunin nokkuð jákvæð í mörg ár. Á APEC-ráðstefnunni í Peking árið 2014 sömdu bandarísk og kínversk yfirvöld um að bjóða bandarískum sérfræðingum upp á þann möguleika um að sækja um tíu ára vegabréfsáritun.
Árangurinn sem þessi herferð skilaði þurrkaðist hins vegar út um leið og heimsfaraldur skall á og hafa pólitískar deilur milli Kína og Vesturlanda gert ástandið enn verra. Fjöldi erlendra fyrirtækja hefur þegar yfirgefið Kína og gengur erfiðlega að sannfæra erlenda sérfræðinga um að sækja um störf hjá kínverskum fyrirtækjum.
Háskólar í Kína hafa einnig fundið fyrir þessari þróun en fjöldi bandarískra námsmanna í landinu hefur til að mynda fækkað um allt að 98% frá því fyrir heimsfaraldur.