Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar fjárfestingarfélags, segir að félagið telji ekki nokkurn vafa á því að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hafi verið att út í fyrirvaralaus húsleit eða „veiðiferð“ hjá Skel í október síðastliðnum fyrir áeggjan innlendrar stofnunar.

Þetta kemur fram í ávarpi Jóns Ásgeirs í ársskýrslu Skeljar. Gera má ráð fyrir að hann sé að vísa þar í Samkeppniseftirlitið (SKE) sem aðstoðaði starfsfólk ESA við fyrirvaralausu húsleitina. Jón Ásgeir telur að atburðarásin í tengslum við húsleitina muni væntanlega skýrast við síðara tímamark.

Athugun ESA sneri að eignaskiptasamningi frá apríl 2022 milli Lyfja og heilsu og Lyfjavals varðandi tiltekin hefðbundin apótek aðilanna sem starfrækt voru og síðar lokað í Mjóddinni og Glæsibæ. Umrædd viðskipti höfðu verið tilkynnt til SKE á sínum tíma og áfrýjunarnefnd samkeppnismála tók einnig málið fyrir.

ESA hafði grunsemdir um markaðsskiptingu á smásölumarkaði með lyf, nánar tiltekið í hefðbundin apótek og bílalúguapótek, og þannig útilokað beina samkeppni sem var fyrir hendi milli hefðbundinna apóteka félaganna.

Jón Ásgeir ræddi málið, sem hann telur óskiljanlegt, í nýlegum hlaðvarpsþætti Chess after dark.

„Það sem var náttúrulega það fyndna við þetta er að þeir sögðu að við hefðum skipt markaðnum þannig að einn var í lúgum og hinn væri í [hefðbundnu] apótekum. En þeir voru ekki búnir að átta sig á því að öll apótek sem eru opnuð verða að vera með inngang eins og venjulegt apótek. Þú verður að geta farið og fengið ráð, lyfjaráðgjöf.“

Í ofangreindu ávarpi í ársskýrslu Skeljar segir Jón Ásgeir að heimsókn ESA hafi verið gerð af offorsi og komið eins og þruma úr heiðskíru lofti „enda engin innistæða fyrir henni“.

„Því miður er það hins vegar svo að eftirlitsaðilar geta illa viðurkennt að mistök hafi verið gerð og eiga það til að halda tilefnislausum rannsóknum áfram til margra ára. Því miður verður því að gera ráð fyrir því að nú hefjist nokkra ára biðleikur.“

Hafði áhrif á samrunaviðræður við Samkaupa

Skel og Sam­kaup hófu í janúar 2024 könnunar­við­ræður vegna mögu­legs sam­runa Sam­kaupa og félaga í eigu Skeljar, þ.e. Orkunnar, Löðurs og Heimkaupa. Jón Ásgeir segir að nokkuð drjúgur tími hafi farið í viðræðurnar.

Þær hafi leitt í ljós að verulegt hagræði hefði orðið af þessum samruna. Mat ráðgjafa hafi verið hagræðing á fyrstu 90 dögum samrunans hefði verið um 1.400 milljónir á ársgrundvelli að sögn Jóns Ásgeirs.

„Engu að síður ákváðu menn að ganga frá borði í upphafi október og notuðu þá skýringu að heimsókn ESA [...] hafi skipt þar sköpum. Virðist engu hafa breytt um þá ákvörðun að í samningum aðila var ákvæði sem hefði haldið hvorum aðilanum skaðlausum af slíku tjóni. Það er ekki mitt að efast um þá skýringu en þarna fór forgörðum gott viðskiptatækifæri.“

Félögin tilkynntu um slit á samrunaviðræðunum í lok október síðastliðnum. Sú skýring sem var gefin var að Skel hefði gert kröfu um að hluthafar Samkaupa myndu auka hlutafé félagsins fyrir samruna, en að stjórn Samkaupa hefði ekki fallist á þá kröfu.

Í lok árs hófust viðræður að nýju um sameiningu Heimkaupa við Samkaup og í febrúar var undirritaður samrunasamningur. Samkomulagið felur í sér að Samkaup er yfirtökufélagið og sameinast þar með öllum einingum Heimkaupa á matvörumarkaði og greiðir fyrir þau með útgefnu hlutafé í Samkaupum.

Í desember ákvað hluthafafundur Samkaupa að auka hlutafé félagsins um 1 milljarð króna til að styrkja eiginfjárstöðu félagsins til skamms tíma, og tók Skel þátt í þeirri hlutafjáraukninginu. Eftir samrunann mun Skel eiga óbeint samtals um 13,7% í Samkaupum.

„Eina sem stendur út af þar er að Samkeppniseftirlitið samþykki samrunann, en ég trúi því að það sé hagur allra að samruninn gangi eftir, þar á meðal neytenda. Við bindum vonir við það að Prís verði sterkari eining í kjölfar samrunans og hið sameinaða félag geti boðið upp á lægsta matvöruverð á landinu á fleiri staðsetningum en við Smáratorg,“ segir Jón Ásgeir.

Frekari fjárfestingar í verslunargeiranum erlendis ekki ólíklegar

Í júlí 2024 var tilkynnt um kaup Skeljar og Axcent of Scandinavia, sem á og rekur sænska verslunarfélagið Åhléns, á belgísku verslunarkeðjunni Inno. Jón Ásgeir segir að með kaupunum hafi stefnu stjórnar Skeljar um að færa stærri hlut efnahags félagsins í erlendar fjárfestingar verið hrint í framkvæmd.

Hann rekur aðdraganda kaupanna í stuttu máli og segir að tækifærið hafi óvænt komið upp í tengslum við skoðun á öðrum fjárfestingakostum í verslunargeira Evrópu. Skel taldi verðlagninguna á Inno upphaflega of háa en á vormánuðum hafi belgíska félagið verið boðið á mun lægra verði ef hægt væri að klára viðskiptin innan þröngra tímamarka.

„Það tókst og viðskiptin voru kláruð á 94 dögum. Þar skipti gríðarlega miklu máli að okkar hópur er vel sjóaður í svona verkefnum og einnig að samstarfsaðilar okkar voru vel með á nótunum. Ekki er ólíklegt að frekari fjárfestingar í verslunargeiranum erlendis fylgi í kjölfarið.“

Hann minnist einnig á að Skel hafi í lok síðasta árs farið í samstarf með Iceland Foods um sölu á þeirra vörum á Norðurlöndum. Félögin stofnuðu sameinaða félagið Ice JV ehf. sem mun annast dreifingu á frosnum vörum Iceland Foods til verslana og viðskiptavina í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.

„Þar er um að ræða spennandi verkefni sem felur í sér samvinnu við stærstu verslunarkeðjur Norðurlanda,“ segir Jón Ásgeir.