Ríkisaðstoð Íslands jókst um 10% að raunvirði milli áranna 2022 og 2023, samkvæmt nýrri samanburðarskýrslu ESA, eftirlitsstofnunar EFTA. Ísland varði 336 milljónum evra eða um 50 milljörðum króna í ríkisaðstoð, sem samsvarar 1,15% af vergri landsframleiðslu.
„Meginhluti þess fór í stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun, auk umhverfismarkmiða. Skattaívilnanir voru helsta stuðningsleiðin,“ segir í tilkynningu ESA.
Noregur og Liechtenstein draga úr ríkisaðstoð
Fram kemur að EES EFTA-ríkin þrjú – Ísland, Noregur og Liechtenstein - hafi heilt yfir dregið úr útgjöldum til ríkisaðstoðar árið 2023.
Samanlagt vörðu ríkin þrjú 5,6 milljörðum evra til ríkisaðstoðar árið 2023, sem er 2% raunlækkun frá árinu 2022.
„Þessa lækkun útgjalda má aðallega rekja til þess að ráðstafanir sem ætlað var að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19 og Úkraínu voru lagðar niður í áföngum, ásamt lækkun útgjalda til umhverfismarkmiða. Mikill samdráttur í ríkisaðstoð á þessum sviðum vó þyngra en aukin útgjöld til byggðaaðstoðar. Árið 2023 var 44% útgjalda EES EFTA-ríkjanna til ríkisaðstoðar á sviði umhverfismarkmiða.“
Noregur greindi frá því að hafa varið 5,3 milljörðum evra í ríkisaðstoð, eða 1,19% af VLF, sem er 3% raunlækkun frá því á árinu áður. Stærsti hluti þess fór í að styðja við umhverfismarkmið. Skattaívilnun var sú stuðningsleið sem mest var notuð.
Liechtenstein jók útgjöld til ríkisaðstoðar og greindi frá því að 15,3 milljónum evra hefði verið varið í aðstoð (0,2% af VLF). Stærsti hluti þess fór einnig í að styðja við umhverfismarkmið. Bent er á að þetta sé lægsta framlag til ríkisaðstoðar sem hlutfall af VLF af öllum 30 EES-ríkjunum. Öll aðstoð var veitt með beinum styrkjum.