Evrópusambandið er talið líklegt til að draga úr umfangi regluverks sem krefur fyrirtæki og stofnunar um upplýsingagjöf um sjálfbærni vegna þrýstings frá stjórnvöldum í Frakklandi og Þýskalandi, tveimur stærstu hagkerfum innan Evrópusambandsins.

Frönsk stjórnvöld eru sögð undirbúa tillögur sem miða að því að draga úr kvöðum CSRD-tilskipunarinnar. Fulltrúar Frakka gætu kynnt tillögunnar strax í þessari viku, samkvæmt heimildarmanni Bloomberg.

Þýsk stjórnvöld hvöttu framkvæmdastjórn ESB í síðasta mánuði til að draga úr umfangi tilskipunarinnar. Í umfjöllun Bloomberg er það rakið til þess að aðilar úr viðskiptalífinu og ýmsir þingmenn telja stíft regluverk ESB hamla samkeppnishæfni hagkerfisins.

Landsframleiðsla í Þýskalandi dróst saman árið 2024 eða annað árið í röð, samkvæmt bráðabirgðatölum sem þýska hagstofan birti í síðustu viku.

Nái til færri fyrirtækja

Að óbreyttu myndi CSRD-tilskipunin hafa áhrif á allt að 50 þúsund fyrirtæki sem stunda atvinnustarfsemi innan Evrópusambandsins. Fyrirtæki með a.m.k. 250 starfsmenn og árlegar tekjur upp á 50 milljónir evra, eða um 7,3 milljarða króna á gengi dagsins, þurfa að veita ítarlegar sjálfbærniupplýsingar, allt frá kynjasamsetningu stjórnar til áhrifa starfsemi þeirra á líffræðilegan fjölbreytileika.

Fyrirtækjum sem falla undir fyrsta fasa tilskipunarinnar ber að birta umræddar sjálfbærniupplýsingar í ársskýrslum fyrir árið 2024.

Framkvæmdastjórn ESB gæti ákveðið að styðja tillögur um að skerða gildissvið tilskipunarinnar, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg sem þekkja til viðræðna sem standa enn yfir.

Talið er að tillögur franskra stjórnvalda verði í samræmi við ráðleggingar Robert Ophele, formanni franska reikningsskilaráðsins. Hann hefur lagt til að ESB haldi sér við fresti um gildistöku, en breyti gildissviði tilskipunarinnar þannig að hún náí einungis til fyrirtækja með fleiri en þúsund starfsmenn.

Bent er á að ákveðið var að draga úr gildissviði CSDDD-regluverksins – sem fjallar um sjálf­bæra og á­byrga hegðun fyrir­tækja, stjórnar­hætti og hlítingu við mann­réttindi og um­hverfis­mál í rekstri fyrir­tækja – þannig að hún nái bara til fyrirtækja með a.m.k. þúsund starfsmenn og árlegar tekjur yfir 450 milljónum evra, eða 65 milljörðum króna.

Yrði sama leið farin með CSRD-regluverkið þá gæti fyrirtækjum sem falla undir gildissvið þess fækkað niður í 7 þúsund.

Mögulegt undanhald ESB frá ESG-markmiðum sínum er sagt í samræmi við breyttan pólitískan veruleika. Donald Trump, nýr forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að ætla að vinda ofan af loftslagsregluverki forvera síns, Joe Biden, og styðja við aukna framleiðslu jarðefnaeldsneytis.