Evrópska hlutabréfavísitalan Europe Stoxx 600 hefur hækkað um 1,5% frá opnun markaða í morgun, eftir að hafa lækkað um samtals 12% síðustu fjóra viðskiptadaga. Þá hefur FTSE 100 vísitalan í London kauphöllinni hækkaði um 1,9%.
Hlutabréfamarkaðir í Asíu réttu aðeins úr kútnum í morgun eftir töluverðar lækkanir síðustu þrjá viðskiptadaga sem einkum hafa verið raktar til tollana sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um í síðustu viku.
Japanska hlutabréfavísitalan Nikkei 225 hækkaði um 6% í nótt. Viðskiptamiðlar tengja hækkunina við fregnir um að stjórnvöld Japans og Bandaríkjanna séu að undirbúa viðræður um að draga úr tollum.
Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að líklega yrði forgangsraðað viðræðum við Japan þar sem stjórnvöld þar í landi voru snögg að hafa samband. Þá segir í umfjöllun WSJ að það hafi sennilega hjálpað stemningunni að helstu hlutabréfavísitölur á bandaríska markaðnum þokuðust aðeins upp rétt fyrir lokun markaða í gær.
Hang Seng vísitalan í Hong Kong, sem leiddi lækkanir í gær með 13% lækkun, hækkaði um 1,5% í nótt. Þá lækkaði CSI 300 vísitalan á meginlandi Kína um 1,7%. Ástralska S&P/ASX 200 hækkaði um 2,3%.
Jakarta Composite vísitalan í Indónesíu féll um 7,9% sem er rakið til þess að markaðurinn þar í landi opnaði aftur eftir að viðskipti höfðu verið stöðvuð. Helstu hlutabréfavísitölur Víetnam og Taílands lækkaði um 6% en markaðir þar í landi voru lokaðir í gær vegna frídags.