Að öllu óbreyttu munu evrópskir bankar skila um 123 milljörðum evra til hluthafa á þessu ári í formi arðgreiðslna og endurkaupa á eigin bréfum.
Mun þetta vera annað árið í röð sem arðgreiðslur ná þessum hæðum, samkvæmt UBS en Financial Times greinir frá.
Stærstu skráðu bankar í Evrópu og Bretlandi eru áætlaðir að greiða 74,4 milljarða evra í arð og kaupa eigin bréf fyrir um 49 milljarða evra, en von er á ársuppgjörum á næstu vikum.
Samkvæmt UBS er þetta meira en þeir skiluðu hluthöfum árið 2023, sem var met fyrir arðgreiðslur og endurkaup
Hækkandi vaxtastig hefur verið helsta ástæða fyrir góðri afkomu bankanna, þar sem hærri vextir á lánum hafa aukið vaxtamun þeirra verulega.
Þeir bankar sem skila hluthöfum mestum greiðslum fyrir árið 2024 eru HSBC, BNP Paribas og UniCredit með greiðslur upp á 19,3 milljarða, 11,6 milljarða og 8,8 milljarða evra, samkvæmt UBS.
Samkvæmt FT hafa framtíðarhorfur bankageirans í Evrópu batnað eftir erfiðan áratug þar sem vaxtastig var lágt eða neikvætt og reglubyrði hafði mikil áhrif á greiðsluflæði til hluthafa.
Þrátt fyrir lækkun vaxta, sem gæti haft áhrif á vaxtatekjur, er bjartsýni meðal fjárfesta á áframhaldandi greiðslur.
Jérôme Legras, stjórnandi hjá Axiom Alternative Investments, telur núverandi greiðslustig sjálfbært og spáir jafnvel örlítilli hækkun á arðgreiðslum árið 2025.
Hann bendir á að lægri kostnaður við innlán, hærri vextir á endurfjármögnuðum lánum og meiri tekjur af þjónustustarfsemi hafi bætt afkomu bankanna.
Citigroup spáir því að arðgreiðslur og endurkaup bankanna muni nema 134 milljörðum evra árið 2025, sem gæti haldið áfram að laða fjárfesta að.
Áskoranir fram undan
Þrátt fyrir jákvæðar horfur eru evrópskir bankar enn að glíma við lægri verðmat á markaði samanborið við bandaríska keppinauta sína.
Það endurspeglast í lægri verðlagningu bankanna miðað við bókfært virði eigna.
Andrea Orcel, forstjóri Unicredit, varaði við því á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos að minna eftirlit með bandarískum bönkum gæti veikt samkeppnishæfni evrópskra banka.
„Ef regluverk Bandaríkjanna verður mun léttara en í Evrópu gæti það sett evrópska banka í erfiða stöðu, jafnvel á þeirra eigin heimamarkaði,“ sagði Orcel.