Exista ehf. hefur eignast 100% hlutafjár í VÍS eignarhaldsfélagi hf. Eigendur rúmlega 80% hlutafjár VÍS eignarhaldsfélags hafa samþykkt kauptilboð Exista í hluti sína. Fyrir átti Exista tæp 20% hlutafjár.
Kaupverð hlutafjárins er 53,2 milljarðar króna sem verður greitt með nýútgefnum hlutum í Exista og fá seljendur tæplega 18,5% hlutafjár í Exista en heildarverðmæti VÍS í kaupunum var metið 65,8 milljarðar króna. Með kaupunum á VÍS eignarhaldsfélagi er Exista orðið eitt öflugasta fjármálaþjónustufyrirtæki landsins og er sameinað félag eftir viðskiptin metið á 288 milljarða króna. Kaupin eru liður í umbreytingu Exista og undirbúningi skráningar félagsins í Kauphöll Íslands sem fyrirhuguð er í september næstkomandi segir í tilkynningu félagsins.
Í kjölfar kaupanna er áformað að sameina VÍS eignarhaldsfélag og Exista undir nafni Exista hf. Hið nýja Exista er alhliða fjármálaþjónustufyrirtæki með viðamikinn rekstur á sviði trygginga og eignaleigu auk fjárfestingastarfsemi. Kaupin og sameiningin er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins.
Innan Exista er rekið stærsta vátryggingafélag landsins, Vátryggingafélag Íslands og vátryggingafélagið Vörður Íslandstrygging en markaðshlutdeild þeirra á íslenskum vátryggingamarkaði er um 38%. Exista rekur einnig líftryggingafélagið Lífís, Öryggismiðstöð Íslands og stærsta eignaleigufyrirtæki landsins, Lýsingu. Exista er stærsti hluthafi Kaupþings banka með 25,1% hlut, stærsti hluthafinn í Bakkavör Group með 26,0% hlut og stærsti hluthafi Símans með 43,6% hlut, auk annarra skammtíma- og langtímafjárfestinga í dreifðu eignasafni.