Kortavelta Íslendinga erlendis dróst saman um 5,3% í júlí miðað við sama mánuð í fyrra og þarf að leita aftur til október 2019 til að finna meiri samdrátt. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá sem hagfræðideild Landsbankans birti í dag undir yfirskriftinni Rólegri neysla síðustu mánuði .

„Verður þetta að teljast talsverð breyting á því sem var fyrir ári þegar vöxtur mældist hátt í 20% yfir sumarmánuðina,” segir í Hagsjánni.

Sömu sögu er ekki að segja um kortaveltu Íslendinga í verslunum innanlands en í júlí var veltan um 3% meiri en í sama mánuði í fyrra og í júní var um 0,3% aukningu að ræða. Til samanburðar bendir hagfræðideildin á að kortavelta innanlands hafi aukist að meðaltali um tæp 4% yfir sumarmánuði síðasta árs.

Samdráttinn veltunnar erlendis er m.a. skýrð með vísun að brottfarir Íslendinga um Leifsstöð hafi verið um 9% færri í júlí miðað við sama mánuð 2018. „Frá falli WOW air hefur mælst samdráttur í fjölda utanlandsferða Íslendinga í hverjum mánuði samanborið við sama mánuð árið á undan,” segir í Hagsjánni.

Þá hafi væntingar landsmanna til efnahagsástandsins versnað en í mælingu Gallup í júní sl. voru svartsýnir fleiri en bjartsýnir. Leiðir deildin líkum að því að landsmenn virðist vera að halda að sér höndum þegar komi að kaupum á dýrum neysluvörum og flugferðum. Raunaukning í smásöluverslun gefi til kynna að vöxtur fyrstu mánuðum ársins hafi verið mun hægari en árið á undan.

„Kaupmáttur launa hefur samt sem áður aukist nokkuð stöðugt síðustu misseri, þó hægt hafi á vextinum og getur það verið hluti skýringarinnar. Auk þess hafa væntingar fólks til efnahagsástands næstu mánaða versnað sem leiðir ef til vill til þess að fólk forgangsraðar neyslu sinni öðruvísi,” segir í niðurlagi Hagsjáinnar.