Frumvarp að nauðasamningi félagsins Vélsmiðju Hjalta Einarssonar (VHE), sem hefur verið í greiðslustöðvun frá því í apríl á síðasta ári, var samþykkt fyrr í þessum mánuði af tæplega 84% atkvæðismanna og ríflega 89% kröfufjárhæða. Verður staðfesting nauðasamnings tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness á þriðjudaginn í næstu viku. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu.
VHE var í nóvember í fyrra veitt heimild til að leita nauðasamnings og var lögmaðurinn Guðmundur Skúli Hartvigsson skipaður umsjónarmaður með framkvæmd nauðasamningsumleitana.
VHE lenti í erfiðri stöðu fjárhagslega í kjölfar þess að í ljós kom að Upphaf fasteignafélag, sem var stór samstarfsaðili VHE, væri mun verr fjárhagslega á sig komið en áður var talið . Ástæða þess var ekki síst að verkefni sem VHE vann að fyrir Upphaf voru komin mun styttra á veg en áður hafði verið talið. Í mars á síðasta ári fjallaði Kveikur um greiðslur frá VHE til framkvæmdastjóra Upphafs, samhliða því að VHE byggði fyrir Upphaf. Fjármálafyrirtækið Gamma, sem rekur Upphaf, kærði greiðslurnar til héraðssaksóknara, en stjórnendur VHE sögðu þær eiga sér eðlilegar skýringar og vera ótengdar framkvæmdum fyrir Upphaf.
Krefst VHE þess að nauðasamningur verði staðfestur skv. frumvarpinu. Umsjónarmaðurinn Guðmundur Skúli hefur mælt með því að svo verði gert. Bendir hann á að hvorki ágreiningsatkvæði né ógreidd atkvæði hafi áhrif á niðurstöðu úrslita atkvæðagreiðslunnar.
Frumvarpið að nauðasamningnum er í meginatriðum þess efnis að lánardrottnum er boðin greiðsla á 50% af fjárhæð samningskrafna, þannig að 10% verði greidd með peningum eigi síðar en átta vikum eftir að nauðasamningur hafi komist á og 40% greiðist með skuldabréfi, sem verði afhent eftir nefndar átta vikur.
„Skuldabréfin séu óverðtryggð til sjö ára með 60 mánaðarlegum afborgunum og fyrsta greiðsla 24 mánuðum eftir staðfestingu nauðasamnings. Samningsfjárhæðir að fjárhæð 100.000 og lægri greiðist að fullu. Gert er ráð fyrir meiri ívilnun af hálfu Landsbankans hf.,“ segir í Lögbirtingarblaðinu.
Landsbankinn hefur verið aðal lánveitandi félagsins. Í árslok 2019 námu skuldir félagsins, 9,7 milljörðum króna, en þar af voru langtímaskuldir 6,2 milljarðar króna. Bókfært virði eigna var 10,25 milljarðar króna og eigin fjár 577 milljónir króna.
Í Lögbirtingarblaðinu er skorað á þá, sem vilja hafa uppi andmæli gegn staðfestingu nauðasamningsins, að mæta á dómþing Héraðsdóms Reykjaness, sem verður háð í dómsal 1 í dómhúsinu að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, þriðjudaginn 2. febrúar nk., kl. 14.30, þar sem krafan um staðfestingu nauðasamningsins verður tekin fyrir.
Fréttin var uppfærð eftir að hlutfall krafna sem greitt var með peningum var leiðrétt í Lögbirtingarblaðinu.