Norska fjármálaeftirlitið hefur sektað Danske Bank um 50 milljónir norskra króna, sem jafngildir um 621 milljón íslenskra króna, fyrir að þrýsta vöxtum upp á við með skiptasamningum fyrir útgáfu norskra ríkisskuldabréfa.
Árið 2023 sá Danske Bank um útboð þar sem verð skuldabréfsins fylgdi vöxtum en samkvæmt norska fjármálaeftirlitinu voru vextirnir ákvarðaðir eftir gerviviðskipti.
„Vaxtarófið var hækkað af Danske Bank á óeðlilegan hátt þegar verðið var ákvarðað, og viðskiptin voru framkvæmd með það að markmiði að bankinn hefði fjárhagslegan ávinning af háum árangursvöxtum,“ segir í tilkynningu eftirlitsins.
Norska fjármálaeftirlitið segir að um „gróft“ brot sé að ræða sem geti grafið undan trausti á markaðnum.
Danske Bank sjálfur lét danska fjármálaeftirlitið vita af málinu, sem starfaði með norsku hliðstæðu sinni við rannsóknina. Samkvæmt Børsen var það metið til refsilækkunar og hefði sektin að öðrum kosti verið hærri.
Samkvæmt yfirlýsingu frá Danske Bank hefur starfsmanninum, sem bar ábyrgð á málinu, verið sagt upp störfum hjá bankanum.
„Við höfnum alfarið svona viðskiptaháttum sem lýst er af norska fjármálaeftirlitinu og hörmum að þetta hafi yfirhöfuð getað átt sér stað. Heiðarleiki á markaði og traust viðskiptavina okkar eru hornsteinar starfseminnar, og þegar svona mál koma upp geta þau skaðað eða grafið undan þessum hornsteinum og við tökum það alvarlega,“ segir Carolina Crevatin Martin, framkvæmdastjóri verðbréfaviðskipta hjá Danske Bank, í fréttatilkynningu.
Eftir atvikið fór fram ítarleg innri rannsókn hjá bankanum og var þjálfun og verkferlum breytt og styrkt, að sögn bankans.
Vextirnir ruku upp á skömmum tíma
Norska ríkið var að gefa út skuldabréf sem voru með 10 ára líftíma en smávægilegar hækkanir í vaxtastigi reyndust hafa mikil áhrif á virði bréfanna.
Norski seðlabankinn varð fyrir fjárhagslegu tjóni vegna hærri vaxta, sem norskir skattgreiðendur þurfa á endanum að bera.
Í rannsókn norska eftirlitsins kom fram að viðskiptamaður bankans hafi sýnt óeðlilega hegðun með því að framkvæma 26 viðskipti á aðeins 16 mínútum rétt áður en vaxtastigið var ákvarðað.
Þetta leiddi til þess að álagið hækkaði úr 3,11% í 3,16% á mjög skömmum tíma.
Samkvæmt norska fjármálaeftirlitinu sýna samskipti mannsins innan bankans að hann hafi verið „æstur“ meðan á þessu stóð og leitað upplýsinga um viðskiptin „óvenju oft“.
Starfsmaður Danske bank á að hafa bent honum á að hægja á sér með skilaboðum á borð við: „Hættu, félagi. Þetta er allt í spjallinu.“
„Stórsigur“ fyrir bankann
Í rannsóknarskýrslunni er einnig vísað til samtala sem viðskiptamaðurinn átti við ónefndan samstarfsaðila. Þar er viðskiptamaðurinn sagður lýsa því hvernig hann hafi með stærð sinni á markaðnum náð að stjórna verðinu.
„Ef ég á að vera hreinskilinn – haltu þessu fyrir þig – þá var þetta fokking stórsigur, félagi! Við græddum stórt í dag,“ sagði hann og vísaði til verðhækkunarinnar.
Samtímis gerir hann sér grein fyrir tjóni norska seðlabankans og skrifar að þeir hafi „orðið fyrir tjóni“ og „hatað þetta“.