Norska fjár­mála­eftir­litið hefur sektað Danske Bank um 50 milljónir norskra króna, sem jafn­gildir um 621 milljón ís­lenskra króna, fyrir að þrýsta vöxtum upp á við með skipta­samningum fyrir út­gáfu norskra ríkis­skulda­bréfa.

Árið 2023 sá Danske Bank um út­boð þar sem verð skulda­bréfsins fylgdi vöxtum en sam­kvæmt norska fjár­mála­eftir­litinu voru vextirnir ákvarðaðir eftir gervi­við­skipti.

„Vaxtarófið var hækkað af Danske Bank á óeðli­legan hátt þegar verðið var ákvarðað, og við­skiptin voru fram­kvæmd með það að mark­miði að bankinn hefði fjár­hags­legan ávinning af háum árangur­svöxtum,“ segir í til­kynningu eftir­litsins.

Norska fjár­mála­eftir­litið segir að um „gróft“ brot sé að ræða sem geti grafið undan trausti á markaðnum.

Danske Bank sjálfur lét danska fjár­mála­eftir­litið vita af málinu, sem starfaði með norsku hliðstæðu sinni við rannsóknina. Sam­kvæmt Børsen var það metið til refsilækkunar og hefði sektin að öðrum kosti verið hærri.

Sam­kvæmt yfir­lýsingu frá Danske Bank hefur starfs­manninum, sem bar ábyrgð á málinu, verið sagt upp störfum hjá bankanum.

„Við höfnum al­farið svona við­skipta­háttum sem lýst er af norska fjár­mála­eftir­litinu og hörmum að þetta hafi yfir­höfuð getað átt sér stað. Heiðar­leiki á markaði og traust við­skipta­vina okkar eru horn­steinar starf­seminnar, og þegar svona mál koma upp geta þau skaðað eða grafið undan þessum horn­steinum og við tökum það al­var­lega,“ segir Carolina Crevatin Martin, fram­kvæmda­stjóri verðbréfa­við­skipta hjá Danske Bank, í frétta­til­kynningu.

Eftir at­vikið fór fram ítar­leg innri rannsókn hjá bankanum og var þjálfun og verk­ferlum breytt og styrkt, að sögn bankans.

Vextirnir ruku upp á skömmum tíma

Norska ríkið var að gefa út skulda­bréf sem voru með 10 ára líftíma en smávægi­legar hækkanir í vaxta­stigi reyndust hafa mikil áhrif á virði bréfanna.

Norski seðla­bankinn varð fyrir fjár­hags­legu tjóni vegna hærri vaxta, sem norskir skatt­greiðendur þurfa á endanum að bera.

Í rannsókn norska eftir­litsins kom fram að við­skipta­maður bankans hafi sýnt óeðli­lega hegðun með því að fram­kvæma 26 við­skipti á aðeins 16 mínútum rétt áður en vaxta­stigið var ákvarðað.

Þetta leiddi til þess að álagið hækkaði úr 3,11% í 3,16% á mjög skömmum tíma.

Sam­kvæmt norska fjár­mála­eftir­litinu sýna sam­skipti mannsins innan bankans að hann hafi verið „æstur“ meðan á þessu stóð og leitað upp­lýsinga um við­skiptin „óvenju oft“.

Starfs­maður Danske bank á að hafa bent honum á að hægja á sér með skila­boðum á borð við: „Hættu, félagi. Þetta er allt í spjallinu.“

„Stór­sigur“ fyrir bankann

Í rannsóknar­skýrslunni er einnig vísað til sam­tala sem við­skipta­maðurinn átti við ónefndan sam­starfsaðila. Þar er við­skipta­maðurinn sagður lýsa því hvernig hann hafi með stærð sinni á markaðnum náð að stjórna verðinu.

„Ef ég á að vera hrein­skilinn – haltu þessu fyrir þig – þá var þetta fokking stór­sigur, félagi! Við græddum stórt í dag,“ sagði hann og vísaði til verðhækkunarinnar.

Samtímis gerir hann sér grein fyrir tjóni norska seðla­bankans og skrifar að þeir hafi „orðið fyrir tjóni“ og „hatað þetta“.