Almenni lífeyrissjóðurinn hefur fært niður virði íbúðabréfa útgefnum af gamla Íbúðalánasjóðnum, svokölluðum HFF bréfum, eftir að markaðsverð þeirra lækkaði verulega í kjölfar kynningar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sjóðsins.
Almenni tekur þó fram að hann telji að skilmálar skuldabréfanna um ríkisábyrgð séu skýrir og að ríkissjóður beri ábyrgð á núverandi og framtíðarskuldbindingum ÍL-sjóðs. Lífeyrissjóðurinn telur að skilmálarnir standi en vegna óvissu hefur markaðsverð bréfanna lækkað.
„Almenni lífeyrissjóðurinn telur að skilmálar skuldabréfa ÍL-sjóðs um ríkisábyrgð séu skýrir en þar kemur fram að ábyrgðin er óafturkallanleg og að ríkissjóður ber ábyrgð á núverandi og framtíðarskuldbindingum ÍL-sjóðs, þ.á m. greiðslu höfuðstóls og vaxta samkvæmt skilmálum skuldabréfanna.
„Almenni lífeyrissjóðurinn væntir þess að skilmálar skuldabréfanna standi en vegna óvissu um uppgjör bréfanna hefur markaðsverð þeirra lækkað.“
Áform Bjarna leitt til lækkunar á markaðsverði
Bjarni kynnti á fimmtudaginn skýrslu um stöðu ÍL-sjóðs þar sem fram kemur að til að reka ÍL-sjóð út líftíma skulda þyrfti ríkissjóður að leggja honum til um 450 milljarða króna eða um 200 milljarða að núvirði. Verði sjóðnum hins vegar slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða nema 47 milljörðum.
Í kynningu Bjarna kemur fram að einn af valkostum ríkissjóðs sé að Alþingi knýi fram gjaldþrotaskipti eða slit ÍL-sjóðs með lagasetningu þannig að tiltekin skuldabréf útgefin af ÍL-sjóði verði greidd upp fyrir lokagjalddaga.
„Vegna þessara áforma hefur markaðsverð bréfanna lækkað og eru skuldabréfin nú metin á markaði m.v. uppgreiðsluvirði þeirra,“ segir Almenni. Sjóðurinn bendir á að lengsti HFF flokkurinn, með lokagjalddaga árið 2044, féll í verði um 16%. Næsti lengsti flokkurinn, HFF150434, hafi fallið um 8,5% og sá stysti, HFF150224, um rúmlega 1%.
Almenni segir að áhrif virðisbreytingarinnar séu mismunandi eftir ávöxtunarleiðum sjóðsins, en mest eru þau í Ríkissafni sem fjárfestir í ríkisskuldabréfum og innlánum. „Mikilvægt er að þeir sjóðfélagar sem taka ákvörðun um breytingar á söfnum sínum séu meðvitaðir um ofangreint.“
Már Wolfgang Mixa, sem tók sæti í stjórn Almenna í vor, mætti í Kastljós á mánudagskvöld og lýsti yfir áhyggjum af mögulegum áhrifum slits ÍL-sjóðs á lánstraust ríkissjóðs. „Í raun og veru, ef að sjóðurinn er settur í þrot, þá í mínum huga, þá er þetta ekkert annað en greiðslufall hjá ríkissjóði. Þetta er mín persónulega skoðun,“ sagði Már.
Bjarni svaraði honum í færslu á Facebook í gærmorgun og mótmælti harðlega hugmyndum um að slit ÍL-sjóðs myndu líkjast greiðslufalli hjá ríkisjóði. Jafnframt sagði Bjarni að mögulegur skaði á lánstraust ríkissjóðs standist ekki skoðun.
„Það mátti skilja á máli stjórnarmannsins að lífeyrissjóðurinn ætti kröfur á ÍL-sjóð. Engum ætti að koma á óvart að helst vildu kröfuhafar ekkert vita af þessu máli og einfaldlega fá fullar efndir ÍL- sjóðs á skuldum. Vandinn er bara sá að sjóðurinn á ekki fyrir skuldum,“ sagði Bjarni.