Stjórn Fagkaupa, sem á m.a. Johan Rönning og Áltak, ákvað á hluthafafundi í maí að greiða út 2 milljarða króna með lækkun hlutafjár. Fagkaup hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2021 en samstæðan hagnaðist um 954 milljónir árið 2020.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 7,2 milljarða í árslok 2020 og eigið fé nam 3,6 milljörðum. Fagkaup er í eigu AKSO sem er aftur í jafnri eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur.
Sjá einnig: Fagkaup að kaupa Fossberg
Innan Fagkaupa samstæðunnar er Johan Rönning, S. Guðjónsson, Vatn & veitur, Áltak og Sindri. Þá hefur samstæðan nýlegt fest kaup á heildversluninni Ísleifur Jónsson, KH Vinnuföt og Hagblikk, sem sérhæfir sig í sölu á efni og tækjum til loftræstikerfa og húsbygginga. Auk þess er yfirtaka Fagkaupa á vélaversluninni Fossbergi til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.