Ámundi Tómasson framkvæmdastjóri og eigandi Fyrirtak málningarþjónustu segist hafa nóg að gera þessa dagana í hinu ljúfa haustveðri en fljótlega horfir þó til breytinga í verkefnum hjá honum.
Yfirdrifið að gera í nýbyggingum
„Það hefur ekki verið nóg að gera í viðhaldsmálum yfir veturinn, en það er nóg að gera í nýbyggingum, það er yfirdrifið,“ segir Ámundi.
„Ég hef reynt að halda mig á viðhaldsmarkaðnum, en ég næ ekki að gera það allt árið.“
Mikil sveifla síðan eftir hrun
Ámundi segir að vöntun sé á fólki í geiranum nú en annað hafi verið upp á teningnum í kjölfar hrunsins.
„Það má segja að þetta hafi alveg farið eftir hrun, maður var eiginlega bara einn, með kannski einn með sér,“ segir Ámundi.
„Núna er ég fimm starfsmenn en í sumar var ég með svona tíu til tólf.“
Fagmennirnir eru í Noregi
Ámundi segir að það vanti tilfinnanlega fagmenn í málaraiðn hér á landi.
„Það vantar þá sem geta unnið þessa fínni vinnu. Það er nóg af fólki sem getur bjárgað sér og hjálpað manni með málninguna, en það vantar fólk sem getur haldið betur utan um þetta,“ segir Ámundi sem segir marga þeirra vera í Noregi.
„Stór hluti af þeim já, það eru mjög margir góðir farnir út og það hljómar ekkert eins og þeir séu að koma aftur. Þeir sem fóru fyrstir út þeir eru búnir að kaupa sér hús og koma sér fyrir. Ég myndi segja að það verði skortur því það er mjög lítið af nýju fólki.“
Ámundi hefur reynt að leita fyrir sér með fólk erlendis frá. „Það komu alls konar póstar með svakaferilskrám, en það er bara svo vont að treysta því, þannig að ég gafst upp á því.“