Landsbankinn hefur lagt inn beiðni um nauðungarsölu á fasteign að Þrastalundi lóð 1 í Grímsnes- og Grafningshreppi, þar sem veitingastaðurinn Þrastalundur er til húsa. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.
Gerðarþoli er félagið V63 ehf. í eigu Sverris Einars Eiríkssonar samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins. V63 hefur ekki skilað inn ársreikningi frá árinu 2015.
Sverir er hvað þekktastur fyrir að vera eigandi Nýju vínbúðarinnar og fyrir að reka félagið Kaupum gull. Á síðasta ári var hann dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik í tengslum við félaganna BHG, Sogið veitingar og Jupiter gisting, að því er Vísir greindi frá.
Kröfur Landsbankans í V63 nema 59,2 milljónum króna. Beiðni um nauðungarsölu á eigninni til fullnustu kröfum um peningagreiðslu verður tekin fyrir á skrifstofu Sýslumannsins á Suðurlandi á Selfossi þann 16. febrúar næstkomandi hafi þær ekki áður verið felldar niður.
Sverrir rak veitingastaðinn Þrastalund um tíma í gegnum félagið Sogið veitingar. Í ársbyrjun 2019 opnaði veitingastaðurinn aftur eftir að Celio Sosa og Björn Þór Baldursson tóku við rekstrinum. Samkvæmt fyrirtækjaskrá er Celio Sosa aðaleigandi Celio veitinga, rekstraraðila Þrastalundar.