„Þetta Íslandsbankamál var engin ástæða [fyrir starfslokunum] en gerði það að verkum að maður fór að hugsa mikið um að það að vera í forsvari fyrir fjármálafyrirtæki fylgir mikil ábyrgð,“ segir Marinó Örn Tryggvason í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark um ákvörðun sína að láta af störfum sem forstjóri Kviku banka á dögunum.
Stjórnir Kviku og Íslandsbanka hófu samrunaviðræður í byrjun febrúar. Marinó segir að viðræðurnar hafi gengið ágætlega og verið langt komnar þegar sátt Íslandsbanka og Fjármálaeftirlitsins (FME) var birt í lok júní. Umræðan og viðbrögðin við sáttinni fékk hann til að hugleiða framtíð sína.
„Mér sjálfum fannst farið mjög harkalega um stjórnendur og starfsmenn Íslandsbanka. Ég hugsaði um kollega minn fyrrverandi, hana Birnu [Einarsdóttur], þar sem mér fannst farið mjög harkalega með hana fyrir að mínu mati litlar sakir hjá henni.“
Marinó, sem tók við sem forstjóri Kviku árið 2019, og segist hafa hugsað um stöðu sína í allt sumar og komist að niðurstöðu öðrum hvorum megin við verslunarmannahelgina um að hann teldi best fyrir sig og bankann að láta staðar numið.
„Þetta var frábær tími sem ég hefði ekki viljað missa af,“ segir Marinó um tíma sinn hjá Kviku. „En maður fékk þetta í sjálfu sér ekki úr höfðinu á sér hvort að ábatinn væri nægjanlegur miðað við kostnaðinn. Þá er ég ekkert endilega að tala um krónur og aura heldur miklu víðara samhengi, bara öllu sem þarf að fórna.“
Viðbrögðin við sáttinni úr öllu hófi
Kvika sleit samrunaviðræðunum örfáum dögum eftir að sáttin var gerð opinber en lýsti þó yfir vilja að hefja viðræður á ný ef forsendur skapast.
Marinó segir að ákvörðun Kviku um að slíta viðræðunum hafi verið byggð á einföldu mati á viðbrögðum samfélagsins. Eftir á hyggja var þetta hárrétt ákvörðun að hans mati þar sem viðbrögðin voru enn harðari en stjórnendur Kviku áttu von á.
„Mér finnst samfélagið hafa farið mjög ósanngjörnum höndum um stjórnendur Íslandsbanka, mér finnst menn hafa gengið alltof langt í því. Þarna voru jú brotalamir og Íslandsbanki hefur viðurkennt það. En mér finnst viðbrögðin úr öllu hófi við tilefnið.“
Marinó minnist m.a. á framgöngu ákveðinna stéttarfélaga og telur að forsvarsmenn þeirra hafi gengið ótrúlega langt að kalla eftir uppsögnum á starfsfólki Íslandsbanka, sem á sennilega margt hvert aðild að stéttarfélagi.
Virðist hann þar sérstaklega vísa í ummæli Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, sem í viðtali við Vísi furðaði sig á að Íslandsbanki hefði ekki gengið lengra í uppsögnum, þrátt fyrir að þrír af æðstu stjórnendum bankans hefði verið sagt upp og þrír stjórnarmenn bankans léttu af störfum.
„Manni finnst umræðan um þetta vera því miður á alltof lágu plani,“ segir Marinó. „Það er voðalega slæmt ef umræða í samfélagi um mál sem skipta miklu máli er alltof grunn.“
Sáttin harkalega orðuð
Aðspurður segist Marinó hafa alveg búist við að gerð yrði sátt vegna málsins sem hafði þá verið til skoðunar hjá FME í einhverja mánuði. Regluverkið sé með þeim hætti að við brot fjármálafyrirtækja, sem ekki eru metin það alvarleg að vísa þurfi þeim til frekari rannsóknar hjá lögreglu, fari af stað sáttaferli sem endi oft með samkomulagi við FME þar sem fjármálafyrirtækið viðurkennir brot sín og gengst undir að greiða sáttagreiðslu.
„Það kom mér samt á óvart, bæði hvað fjárhæðirnar voru háar og mér fannst sáttin harkalega orðuð,“ segir Marinó og veltir fyrir sér hvort sú breyting hafi orðið að stjórnvöld fari fram á mun hærri sektar- og sáttagreiðslur en áður.
„Við erum með tiltölulega lítið fjármálakerfi en í stórum dráttum með sama regluverk og miklu stærri fjármálafyrirtæki í Evrópu. Það er mjög flókið að fylgja öllum þessum lögum og reglum.“
Marinó tekur fram að hann vilji ekki gera litið úr því þegar lög og reglur eru brotnar. Raunar sé sáttaferlið og umfjöllunin sem því fylgir skynsamleg þar sem markaðurinn í heild gefst kostur á að læra af þeim atriðum sem misfórust og það stuðli að bættri umgjörð fjármálakerfisins.
Hvað varðar Íslandsbankamálið sjálft þá telur Marinó nokkuð mikilvægt að hafa í huga hverjir hinir raunverulegu brotaþolar voru.
„Stór hluti af þessum brotum hjá Íslandsbanka voru gegn lögum eða reglum um fjárvestavernd sem er ætlað að vernda viðskiptavini fjármálafyrirtækisins og í þessu tilfelli þá kaupendurna. Ég hef allavega ekki heyrt neins staðar að þeir sem keyptu séu að kvarta.“
Hefði getað orðið öflugasta og stærsta fjármálafyrirtæki landsins
Spurður nánar um samrunann segist Marinó hafa verið þeirrar skoðunar að mjög spennandi væri að sameina félögin.
„Það hefði verið hægt að búa til öflugasta og stærsta fjármálafyrirtæki landsins sem hefði getað gert ótrúlega hluti. Aftur á móti tel ég líka að framtíðin sé mjög björt hjá Kviku óháð samrunanum, það eru mikil tækifæri þar líka.“