Flugsýningin í Singapore byrjaði fyrr í vikunni og hafa gestir fengið að sjá nóg af herbúnaði sem framleiddur er af bandaríska fyrirtækinu Boeing. F-15 orrustuþotur og Apache-herþyrlur hafa til að mynda verið til sýnis.

Það sem virðist vanta hins vegar eru farþegaþotur fyrirtækisins en Boeing hefur látið sér nægja að sýna flugvélamódel í stað raunverulegra flugvéla.

Sýningin er sú fyrsta sem Boeing hefur tekið þátt í síðan hluti af skrokk flugvélar Alaska Airlines losnaði í miðju flug í janúar og á meðan sýningin fór fram tilkynnti Boeing að forstjóri 737-deildarinnar myndi hætta í starfi.

Airbus hefur hins vegar mætt til Singapore með A350-1000 farþegaþotu sína en fyrirtækið mun meðal annars afhenda 800 flugvélar á þessu ári, þar á meðal nokkrar af A320neo-flugvélum.

Frá því atvikið með Alaska Airlines átti sér stað hafa pantanir Boeing dregist verulega saman en flugvélaframleiðandinn afhenti aðeins 27 flugvélar í janúar miðað við 67 í desember.