Fjárfestingarfélagið InfoCapital ehf., sem er í 97% eigu Reynis Grétarssonar, keypti hlutabréf í Sýn fyrir ríflega 50 milljónir króna á fimmtudaginn. Félög tengd InfoCapital eiga nú samtals 25,1% hlut í fjölmiðla- og fjarskiptafélaginu samkvæmt flöggunartilkynningu.
Eignarhluturinn nálgast því 30% mörkin sem virkja yfirtökuskyldu samkvæmt lögum um yfirtökur.
Félagið Gavia Invest, sem er í 80% eigu InfoCapital, varð stærsti hluthafi Sýnar í júlí 2022 með kaupum á öllum 12,7% hlut Heiðars Guðjónssonar, þáverandi forstjóra Sýnar, fyrir 2,2 milljarða króna. Gengi hlutabréfa Sýnar var 64 krónur í viðskiptunum.
Gavia Invest á í dag 18,2% hlut í Sýn sem er um 1,2 milljarðar króna að markaðsvirði miðað við núverandi 26,6 króna markaðsgengi hlutabréfa Sýnar.
InfoCapital á einnig beinan 4,8% hlut í Sýn að markaðsvirði 319 milljónir króna. Hákon Stefánsson og Ragnar Páll Dyer, stjórnarmenn í Sýn, eiga einnig sjálfir hlut í Sýn í gegnum einkahlutafélög sín. Hákon á 1,6% hlut í gegnum Íslex ehf. og Ragnar Páll 0,4% í gegnum H33 Invest ehf.