Stafrænu markaðsstofurnar Sahara og Svartigaldur hafa báðar hlotið Premier Partner viðurkenninguna frá Google fyrir árið 2024.
Viðurkenningin er veitt fyrir að hámarka árangur í herferðum fyrir viðskiptavini, auka vöxt viðskiptavina og með því sýna fram á færni og sérfræðikunnáttu í Google Ads.
„Við höfum unnið markvisst að því að fá þessa viðurkenningu frá Google síðustu árin, en aðeins 3% af Google Partners hljóta viðurkenninguna Premier Partner ár hvert í heiminum. Viðurkenningin er einnig merki um það traust sem viðskiptavinir hafa veitt okkur í þessari vegferð og því var mikil ánægja þegar hún var í höfn,“ segir Andreas Aðalsteinsson, Partner og yfirmaður stafrænnar deildar Sahara.
Viðurkenningin veitir fyrirtækjunum einnig aðgang að nýjum vörum hjá Google áður en þær fara opinberlega í loftið, aukinn stuðning frá sérfræðingum Google og aðgang að viðburðum á vegum Google.
„Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur hjá Sahara, bæði fyrir fyrirtækið og þá frábæru starfsmenn sem starfa hjá fyrirtækinu. Viðurkenningin gefur ákveðna staðfestingu á þann metnað sem við setjum í verkefnin okkar, og mun þannig styrkja ásýnd fyrirtækisins hér heima og erlendis,“ segir Sigurður Svansson, framkvæmdastjóri Sahara.